131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:26]

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég vil byrja ræðu mína á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir greinargóða skýrslu þar sem dregin var upp mynd af stöðu alþjóðastjórnmála nú um stundir og jafnframt dregin upp mjög skýr mynd af margvíslegum verkefnum sem íslenska utanríkisþjónustan sinnir. Í umræðunni sem fylgt hefur framsögu ráðherrans hefur m.a. verið rætt um varnar- og öryggismál í víðum skilningi.

Ég tel eðlilegt að uppi séu mjög misjafnar skoðanir á innrásinni í Írak, enda eru slíkar aðgerðir ávallt neyðarúrræði. Það sem ég hins vegar álít að sé öllu mikilvægara nú er að koma á friði í landinu svo að unnt sé að einbeita sér að framtíðaruppbyggingunni í landinu. Það er alveg ljóst að það er ekkert sem gerist á einni nóttu og það er líka alveg ljóst að það gerist ekkert af sjálfu sér, það er eitthvað sem vestræn ríki og þjóðir þurfa að taka saman höndum um og vinna að saman.

Mér hefur fundist opinber umræða í íslensku samfélagi um utanríkismál mörg undanfarin missiri öðru fremur einkennast af stóryrtum upphrópunum um Íraksstríðið, að ógleymdum staðhæfingum um mikinn kostnað við að koma á fót tveimur íslenskum sendiráðum. Ég lít svo á að þessi málaflokkur sé mun þýðingarmeiri en svo að það sé ásættanlegt að honum sé sniðinn þessi þröngi stakkur. Utanríkismál og utanríkisviðskipti, varnar- og öryggismál eru í rauninni málefni sem snerta okkur öll, alla einstaklinga í íslensku samfélagi frá degi til dags.

Hvað stríðið í Írak varðar er löngu orðið ljóst að meginforsendurnar fyrir innrásinni í Írak stóðust ekki. Þær reyndust að stórum hluta rangar en það kom í ljós eftir á, eftir innrásina. Ákvörðunin var tekin að hluta til á grundvelli forsendna sem reyndust rangar, á grundvelli rangra upplýsinga, en ákvörðun þeirra sem að þessu hafa staðið var hins vegar tekin í góðri trú. Innrásin í Írak tilheyrir liðinni tíð og það þjónar hvorki hagsmunum öryggis og friðar, lýðræðis og mannréttinda né félagslegra og efnahagslegra hagsmuna Íraka að við hér uppi á Íslandi eða annars staðar séum sýknt og heilagt að hjakka í sama farinu, að hjakka í fortíðinni og í endalausri leit að sökudólgum. Það sem er mikilvægast núna er að ríki heims taki höndum saman í baráttunni gegn hryðjuverkum, hvort sem varðar bein átök við hryðjuverkamenn eða þróunaraðstoð, uppbyggingarstarf eða friðargæslu.

Aukin og efld aðkoma Sameinuðu þjóðanna og forusta er afgerandi að mínu mati hvað þetta varðar. Í ljósi úrslita forsetakosninganna í Bandaríkjunum og í ljósi þess að of litlir kærleikar eru á milli húsbóndans í Hvíta húsinu og þorra stjórnarherra á meginlandi Evrópu er kannski ekki ástæða mikillar bjartsýni um að Vesturlöndin snúi bökum saman. Auðvitað hljótum við að vona að þær alvarlegu aðstæður sem ríkja í alþjóðamálum og erfið staða Bandaríkjanna í Írak knýi á um að Evrópa og Bandaríkin nái saman að nýju.

Á sama hátt og það er nauðsynlegt að mæta hryðjuverkaógninni af fullri hörku með her- og lögregluvaldi er að mínu mati mikilvægt langtímaverkefni að vinna gegn þeim stuðningi sem hreyfingar hryðjuverkamanna njóta. Við þurfum að vinna gegn því að þær geti aflað sér meira fylgis og fái nýliða til voðastarfa.

Uppbyggingin á þeim landsvæðum þar sem öfgamenn útbreiða boðskap sinn og lokka óharðnaða unglinga til liðs við sig, jafnvel til sjálfsmorðsárása, er mikilvægur hluti af því að mæta hryðjuverkaógninni. Svo lengi sem til er frjór jarðvegur fyrir boðskap hryðjuverkamanna þá næst a.m.k. lítill varanlegur árangur. En í uppbyggingarstarfi á átakasvæðum og friðargæslu er einmitt vettvangur þar sem við Íslendingar og aðrar smáar þjóðir getum einkum látið til okkar taka. Þess vegna hefur myndarleg uppbygging átt sér stað á síðustu árum hjá Íslensku friðargæslunni. Það er sérstakt fagnaðarefni. Við getum látið gott af okkur leiða á því sviði og vakið verðskuldaða athygli þrátt fyrir smæð okkar. Stjórn okkar á flugvellinum í Kabúl er eitt besta dæmið um það.

Eitt af því sem ég tel brýnt að gera er að skilgreina bæði hætturnar sem steðja að í öryggis- og varnarmálum, þá hagsmuni sem við viljum standa vörð um og viðfangsefnin sem við viljum setja í forgang.

Ég sagði áðan að ég teldi að málaflokknum utanríkismálum væri allt of þröngur stakkur sniðinn því hann snerti í raun okkur öll, daglegt líf okkar og framtíð. Alþjóðavæðing, alþjóðleg hryðjuverkastarfsemi, stækkun Evrópusambandsins og hugsanleg aðild okkar að því, svo ég nefni bara þrjú dæmi, eru ekki bara orð sem stjórnmálamenn, embættismenn eða fræðimönnum koma við, heldur heiti og hugtök með efni og innihald sem færa okkur viðfangsefni sem við þurfum öll að taka afstöðu til. Þau snerta alla aðra málaflokka og þau snerta öll önnur viðfangsefni í pólitíkinni. Öryggi okkar Íslendinga snýst ekki bara um veru hersins og fjórar þotur á Keflavíkurflugvelli. Það snýst ekkert síður um aðgerðir gegn útbreiðslu smitsjúkdóma og mengun hafsins, baráttu fyrir persónuvernd og friðhelgi einkalífsins, fyrir mannréttindum og fyrir lýðræði. Við getum ekki setið hjá og einangrað okkur frá öðrum þjóðum.

Vandamálin virða ekki landamæri. Við erum þátttakendur í alþjóðasamfélagi, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, bæði með kostum þess og göllum. Nýjar og fyrirséðar ógnir kalla á ný úrlausnarefni og gera kröfur til samstarfs og samhæfingar þeirra krafta sem við ráðum yfir. Loftvarnir okkar eru þýðingarmiklar, en við þurfum líka að tryggja samhæfingu þeirra varna og samstarfið við þá sem ætlað er að axla ábyrgð á innra öryggi okkar, lögreglu, Landhelgisgæslu, Almannavörnum, slökkviliði og hjálparsveitum.

Við eigum, frú forseti, stöðugt að meta og endurskoða hvernig framlögum okkar til utanríkis- og varnarmála er varið, jafnt framlögum til utanríkisþjónustunnar sem öðrum framlögum sem falla undir þennan málaflokk, t.d. til þróunaraðstoðar og friðargæslu. Stærðin skiptir ekki öllu máli. Það að við erum lítil og fámenn þjóð má ekki ráða öllu um afstöðu okkar í utanríkismálum. Hvað framlög til þróunaraðstoðar varðar þá er á alþjóðavettvangi gerð krafa til ákveðins hlutfalls af þjóðartekjum og við erum sannarlega meðal ríkustu þjóða heims. Við eigum mikinn mannauð og menntað og reynsluríkt fólk á fjölmörgum sviðum. Auk þess njótum við virðingar og trúverðugleika á alþjóðavettvangi sem eitt Norðurlandanna.

Það er á hinn bóginn sérstakt viðfangsefni að skoða hvernig hægt er að tryggja hámarksárangur og ávinning af fjárhagslegum framlögum okkar sem öðrum með aukinni samhæfingu og samstarfi við aðrar þjóðir.

Í ræðu minni af sama tilefni í fyrra nefndi ég að Norðurlöndin hafa lengi leikið stærra hlutverk í alþjóðastjórnmálum og að Norðurlöndin hafi haft mun meiri pólitísk áhrif en hernaðar- og efnahagsmáttur þeirra segir til um. Ástæða þess er að Norðurlöndin hafa um árabil notið virðingar víða um heim. Það hefur verið litið til okkar sem fyrirmyndarsamfélaga þar sem jöfnuður og velferð ríki og ekki síst hefur verið litið til okkar vegna þess að Norðurlöndin njóta trúverðugleika sem hlutlausir og sanngjarnir aðilar sem ekki ganga erinda stórvelda á alþjóðavettvangi. Í núverandi landslagi alþjóðastjórnmála er einmitt þörf á slíkum öflum sem geta til að mynda sent friðargæsluliða eða stjórnað uppbyggingarstarfi á átakasvæðum í sátt við alla deiluaðila. Samstarf Norðurlandanna á sviði friðargæslu er því einkar þýðingarmikið. Fyrirmyndardæmið um samstarf á þessu sviði er friðargæslulið undir stjórn Norðmanna á Sri Lanka, en þar hafa friðargæsluliðar frá öllum Norðurlöndunum starfað saman í einni sveit.

Það hefur um tíma verið ósk þingmanna í Norðurlandaráði að samstarf landanna á þessum vettvangi verði eflt enn frekar, að löndin starfi saman að þjálfun friðargæsluliða og komi á samnorrænum friðargæsluliðum til að takast á við sérstök verkefni. Á vettvangi Norðurlandaráðs var á þinginu í Stokkhólmi í síðustu viku fjallað sérstaklega um þetta, um samstarf og samhæfingu krafta Norðurlandanna um þróunaraðstoð, sem jafnframt yrði sterkasta vopnið gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Þar var einnig fjallað um samstarf okkar við Eystrasaltslöndin um málefni Evrópusambandsins og stuðninginn við efnahagslega, pólitíska og félagslega uppbyggingu hjá nýjum nágrönnum okkar í austurátt. En það eru nágrannar sem við eignuðumst við stækkun Evrópusambandsins.

Áður en ég lýk máli mínu, frú forseti, vil ég enn og aftur nefna hlut kvenna í þessu samhengi, þ.e. í tengslum við friðargæsluna. Norðurlöndin hafa allar forsendur til að vera í fararbroddi á því sviði friðargæslunnar, þ.e. í að setja málefni kvenna í forgang á átakasvæðum. Jafnréttishefðin á þrátt fyrir allt sterkastar rætur á Norðurlöndum og því eru Norðurlöndin betur í stakk búin en nokkur önnur til að setja málefni kvenna, hagsmuni þeirra, hagsmuni barna og fjölskyldna, í fyrirrúm. Ég tel að fjölgun kvenna í friðargæslu og uppbyggingarstarfi sé lykilatriði hvað þetta varðar. Ég lít þannig á að markmið okkar hljóti að vera að tryggja sem jafnastan hlut kvenna og karla í friðargæslustörfum og almennt í alþjóðastarfi á þessum vettvangi.

Að þeim orðum sögðum, frú forseti, vil ég lýsa þeirri von minni að nýr hæstv. utanríkisráðherra tryggi stöðu kvenna innan íslensku friðargæslunnar. Jafnframt legg ég mikla áherslu á að við þjálfun og undirbúning friðargæsluliða verði sérstakur gaumur gefinn að stöðu kvenna á átakasvæðum.

Víða er mikið verk að vinna, ekki bara í Írak og Afganistan. Ég hef sjálf heimsótt löndin á Balkanskaganum og orðið vitni að því að þar er alls ekki kominn á sá stöðugleiki og ró sem alþjóðasamfélagið, að mér finnst, gefur sér eða gerir sér von um. Það er ljóst að þar er mikið verk að vinna og ekki síst með friðsamlegri, borgaralegri friðargæslu, við að hjálpa mönnum við að byggja upp samfélagið. Þar skiptir ekki minnstu að horfa sérstaklega til aðstæðna kvenna, barna og fjölskyldna, að loknum stríðsátökum.

Frú forseti. Umræða um utanríkismál sem einskorðast við krónutölu, kostnað við að koma á fót sendiráðum eða lagalegar forsendur fyrir innrásinni í Írak, er að mínu mati öðru fremur hættuleg. Hún einokar og aftrar því að við ræðum öll þau þörfu og brýnu viðfangsefni sem ég held að þingheimur allur geti verið sammála um að brýnt sé að takast á við í nútíðinni til að tryggja frið í framtíðinni.