131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:39]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég tek undir þakkir háttvirtra þingmanna til hæstv. utanríkisráðherra fyrir góða skýrslu. Í henni kom fram að áætlað er að stórauka þróunarhjálp og að hún hafi verið aukin. Ég vil í því sambandi benda á að það er mjög vandasamt að stunda skynsamlega þróunarhjálp. Matargjafir geta t.d. verið mjög skaðlegar. Korngjafir geta eyðilagt landbúnað viðkomandi landa. Bændur fara á vergang því að þeir geta að sjálfsögðu ekki framleitt korn í samkeppni við gjafakorn. Það er því ekki sama hvernig menn stunda þróunarhjálp.

Það sem gert hefur verið með byggingu brunna og annað slíkt er mjög jákvætt. Þá er verið að byggja upp innri strúktúr. Sömuleiðis mættum við fara út í vegagerð en ég vil benda á enn eina leið.

Í bók sinni „Mystery of Capital“ færir hagfræðingurinn Hernando De Soto rök fyrir því að grundvöllur kapítalismans eða frjáls markaðshagkerfis liggi hjá lóðaskrárriturum. Það er svo merkilegt. Við höfum oft séð grínmyndir um rykfallna lóðarskrárritara en þeir eru í raun grundvöllur kapítalismans. Vandamál nýfrjálsra ríkja Sovétríkjanna felst í því að þar er engin lögbundin eða lögmæt eignaskráning til. Fátækt fólk, sérstaklega, getur ekki fengið staðfestingu á eignum sínum nema með mikilli fyrirhöfn. Þetta er vandinn. Vandinn má segja að sé í hnotskurn þannig að maður sem á lítið hús, jafnvel úr pappa eða einhverju slíku, sem er lítils virði í okkar augum en mikils virði í hans augum, getur soltið heilu hungri en samt átt þetta hús. Hann getur ekki veðsett það. Hann verður að selja eignina alla í heilu lagi ef hann ætlar að kaupa sér mat. Hann getur ekki veðsett eign sína eða gengið að henni vísri. Hann þarf að verja hana fyrir þeim sem ásælast hana og margs konar vandræði geta komið upp.

De Soto bendir á að eignir fátæks fólks í þróunarlöndunum séu umtalsverðar og ef þær yrðu veðsetjanlegar, skráðar og með opinberu skráningarkerfi, þá væri mikið til unnið og mætti byggja þar upp markaðshagkerfi í okkar skilningi.

Nú er það svo, frú forseti, að við Íslendingar búum við eitt besta kerfi á þessu sviði, þ.e. skráningu fasteigna, sem nýbúið er að taka upp. Í því kerfi er í fyrsta lagi ákveðin lagasetning, stofnanaumhverfi og skilgreining á því hvað er fasteign, hvað er eign. Það er ekki svo lítið.

Ég hef velt upp þeim möguleika að íslenska ríkið, væntanlega í samvinnu við önnur ríki Norðurlandanna eða önnur, gefi einhverju þróunarríki slíkt kerfi, að þar yrði byggt upp opinbert skráningarkerfi þar sem allir, sérstaklega fátækt fólk, geti skráð eignir sínar sem yrðu þá skilgreindar. Þannig held ég að við mundum gera mest gagn með minnstum tilkostnaði. Það mundi ekki kosta okkur nein ósköp að flytja það hugvit og þann hugbúnað sem við búum að í okkar kerfi til annars ríkis.

Frú forseti. Ég má til með að koma inn á umhverfismál. Við höfum nýlega fengið í hendur skýrslu um hlýnun norðurslóða. Þar eru uggvænlegar fréttir um að greinilegt virðist að norðurslóðir séu að hitna. En það er eins og með sjúkling sem fær hita. Við þurfum að vita af hverju hann þjáist áður en við förum í læknisaðgerðir. Er hann með kvef, er hann með magaverk, magaveiki einhverja, eða hvað hrjáir sjúklinginn? Því miður telja margir sig hafa fundið sjúkdóminn og ganga að því vísu að það sé koldíoxíðmengun sem valdi hlýnun jarðarinnar og svokölluðum gróðurhúsaáhrifum. Þetta er að mínu mati ekki vísindalega sannað. Ákveðin teikn benda til þess en það gætu verið aðrar ástæður fyrir þessari hlýnun. Ástæðan gæti t.d. verið vatnsgufan í andrúmsloftinu sem stafar af umsvifum mannsins við byggingu stórborga, umsvifum mannsins við áveitur og annað slíkt, umsvifum mannsins við að höggva niður skóga.

Það væri mjög alvarlegt ef við færum að lækna sjúklinginn með meðulum við röngum sjúkdómi. Það yrði mjög alvarlegt vegna þess að þær aðgerðir sem menn grípa til vegna koltvíoxíðmengunar miða að því að hefta að miklu leyti ýmiss konar efnahagslegar aðgerðir. Þegar haft er í huga að fjórðu hverja sekúndu deyr einhver maður í heiminum úr hungri þá geta slíkar heftingar á efnahagslegum aðgerðum valdið ómældum hörmungum og dauða víða um heim eða komið í veg fyrir að menn geti barist gegn hungurvofunni. Þess vegna er mjög mikilvægt að menn viti nákvæmlega og að það sé vísindalega sannað hvað valdi þessari hitun, upphitun eða gróðurhúsaáhrifum eða hvort yfirleitt sé um gróðurhúsaáhrif að ræða. Sumir hafa bent á að ákveðnar sveiflur í útgeislun sólar gætu hugsanlega valdið þessu. Það er, að því að ég tel, vísindalega sannað.

Reyndar er orðið mjög erfitt að átta sig á því hvað séu ekta raunvísindi. Menn koma með kenningar, styðja þær ákveðnum gögnum, en það eru engar vísindalegar sannanir fyrir þeim. Mér finnst upp á síðkastið að vísindin séu farin að taka allt of mikið mið af stjórnmálum, að til séu orðin svona stjórnmálaleg vísindi sem verða stundum allt að því að trúarbrögðum, þ.e. menn trúa því að þetta og hitt sé að gerast í staðinn fyrir að sanna það með vísindalegum aðferðum sem eru viðurkenndar og þekktar af öllum. Ef þetta væri vísindalega sannað þá þyrfti ekki annað en birta þær greinar og sanna það. Þá yrði lækningin tiltölulega einföld. En hún er ekki einföld þegar menn vita ekki nákvæmlega hver sjúkdómurinn er. Þess vegna legg ég áherslu á að menn styðji rannsóknir á þessari hitun jarðar. Mannkynið þarf að sjálfsögðu að grípa til eins mikilla vísindalegra rannsókna á þessu fyrirbæri og hægt er því þetta er mjög alvarlegt mál.

Ég hygg að þessi frétt muni kannski verða stærsta fréttin af öllum fréttum síðustu viku, þar á meðal fréttum um kennaraverkfall, borgarstjóra í Reykjavík o.s.frv. Þetta er að sjálfsögðu nokkuð sem gjörvallt mannkyn stendur frammi fyrir.

Sumir hafa sagt að við eigum að láta náttúruna njóta vafans. Auðvitað er það í lagi svo fremi sem við fórnum ekki mannslífum í stórum stíl fyrir þann vafa. Við þurfum vissulega að gæta þess að aðgerðir okkar grípi ekki þannig inn í efnahagslíf heimsins að þær komi niður á þeim sem síst skyldi, því fólki sem í dag er að deyja úr hungri. En það er því miður staðreynd.