131. löggjafarþing — 25. fundur,  11. nóv. 2004.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:06]

Pétur Bjarnason (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að það sé kannski ekki mjög langt á milli sjónarmiða okkar, míns og hv. þingmanns. Það er vafalaust rétt að Hjörleifur Guttormsson hafi haft áhuga á sendiráði í Japan en ég er ekki viss um að hann hefði verið jafnfús að greiða fyrir það. Nú er ég kannski ekki nógu vel informeraður en ég hef hugmynd um að talan gæti verið nærri 700 milljónum við stofnkostnað þess, það eru a.m.k. þær upplýsingar sem ég hef. Ég er ekki viss um að það hafi verið ákvörðun á sínum tíma að leggja svo mikið í þessa uppbyggingu.

Við erum sammála um friðargæslustarfið, það er í sjálfu sér mjög göfugt starf og það er ekki það sem við erum að tala um í þessu sambandi. Við þurfum bara að skilgreina betur hvar við ætlum að sinna því og hvernig.

En það má ekki gleyma því í þessum orðaskiptum okkar að það er svolítið furðulegt að það sem hv. þingmaður er helst að gagnrýna í ræðu minni eru þau atriði sem ég tek undir og reyndar hæli í ræðu hæstv. utanríkisráðherra, því ég er einmitt að taka undir þau orð þar sem hann segir að það þurfi meta starfsemi sendiráðanna með bestu mögulegu hagræðingu í huga. Það er nú eiginlega megininntakið í því sem ég hef verið að segja, að taka undir með hæstv. utanríkisráðherra. Mér þykir miður ef hv. þingmaður er að draga þessa ætlun hans í efa og ég vona að sá sé ekki tilgangur hjá honum.