131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[11:14]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður má ekki misskilja mig. Ég er ekki að hæða hana.

Hinu er ekki að neita að mér auðvitað blæðir í augum að ekki skulu fleiri forustumenn stjórnmálaflokka og þeir sem vinna fyrir þingið á sviði menntamála fylgjast jafngrannt með þessu og ég hef gert. Ég hef auðvitað lesið það sem hv. þingmaður hefur skrifað og ég hef hlustað á ræður hennar hér í salnum. Hv. þingmaður verður þá bara að virða mér það til vorkunnar þó að ég viðurkenni alveg einlæglega að ég fór í smiðju til hennar með ákveðna hluti. Ég skildi þetta betur eftir að hafa lesið ... (Landbrh.: Gott að blindur maður fékk sýn.) Það kemur að því að jafnvel haltir munu ganga, frú forseti. En það var ekki fyrr en ég hafði lesið lýsingu hennar á því hvað gerðist 1989 sem það rann alveg upp fyrir mér í hvílíkt óefni gæti stefnt ef ríkisstjórnin héldi þennan slóða á enda.

Ég er auðvitað þeirrar skoðunar að menn hefðu getað séð fyrir þá niðurstöðu, það er rétt hjá hv. þingmanni. En það var vissulega bent á þetta m.a. af mér og hv. þm. Pétri Bjarnasyni sem tók þetta upp til umræðu utan dagskrár. Þá var bent á að ef ríkisstjórnin gripi ekki til aðgerða gæti það stefnt ekki bara stéttinni í voða heldur líka menntun barnanna. Ég hafði uppi stór orð um svefndrungann sem hæstv. menntamálaráðherra var haldin meðan á þessu stóð en nú hefur hún sem betur fer vaknað. Hv. þm. Dagný Jónsdóttir hefur verið vakandi allan tímann en mér sýnist sem þeir sem eldri eru og reyndari í flokki hennar, ekki bara formaður heldur líka varaformaðurinn, hafi sofið fasta svefni og séu jafnvel enn í þeim drunga.