131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[11:33]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka fram að Frjálslyndi flokkurinn hefur ávallt verið á móti lagasetningum á kjaradeilur. Við börðumst á sínum tíma hatrammlega gegn því að lög yrðu sett á sjómenn eftir að þeir höfðu verið í verkfalli og við erum andvíg því að lög verði sett á kennara núna.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hlýtur að bera þunga ábyrgð í þessu máli. Þetta verkfall sem nú hefur varað í átta vikur kom engum á óvart. Kjarasamningar kennara höfðu verið lausir frá 1. apríl. Síðan eru liðnir rúmir sjö mánuðir og enn sér ekki fyrir endann á deilunni. Ríkisstjórnin hefur á undanförnum vikum minnt á mann sem sefur þungum svefni, eins og bent hefur verið á í fyrri ræðum. Hún hefur minnt á mann sem upplifir martraðir en hann getur ekki vaknað. Nú reynir ríkisstjórnin að rífa sig á fætur í þessu máli og kemur fram með þetta frumvarp eftir að martröðin hefur breiðst út úr sæng stjórnarinnar yfir þjóðfélagið allt. Ástandið eins og það er í dag í þjóðfélaginu er að sjálfsögðu grafalvarlegt. Við erum öll sammála um það. En enn og aftur hlýtur ríkisstjórnin að bera hér töluvert mikla ábyrgð.

Ég sé í sjálfu sér enga ástæðu til að setja á langar ræður í dag. Við höfum þessa staðreynd fyrir framan okkur, frumvarp til laga um kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum og ég tel að ekkert fái komið í veg fyrir að þetta frumvarp verði afgreitt sem lög héðan frá hinu háa Alþingi þannig að skólar hefjist aftur á mánudaginn. Ég hygg þó, virðulegi forseti, að öll sú atburðarás sem við höfum upplifað á undanförnum mánuðum hljóti að verða til þess að við stjórnmálamenn sem sitjum á hinu háa Alþingi, ríkisstjórnarflokkarnir og stjórnarandstaðan, tökum núna vandaða umræðu og förum jafnvel út í lagasetningar til að koma í veg fyrir að svona stórslys endurtaki sig. Svona slys mega aldrei verða aftur, að 45 þúsund grunnskólabörn séu í reiðileysi vikum saman, að 4.500 fjölskyldur kennara þurfi að lifa við verkfallsástand í tvo mánuði. Þetta má ekki gerast aftur.

Við í þingflokki Frjálslynda flokksins höfum farið yfir þetta frumvarp. Við erum ekki alls kostar sátt við það, langt í frá eins og ég nefndi í upphafi máls míns. Mér finnst að hér ættu að verða ákveðnar breytingar, t.d. að kennurum yrði bættur sá skaði sem þeir hafa orðið fyrir í verkfallinu, þ.e. að hugsanlegar kjarabætur þeirra verði ekki frá 15. desember eins og hér er kveðið á um heldur að þær nái framar í tímann.

Ég vil nota tíma minn til að vekja athygli á frumvarpi til laga um breytingu á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem við í Frjálslynda flokknum höfum lagt fram. Það gengur út á að ef kjarasamningar hafa verið lausir lengur en sex mánuði og það semst í kjaradeilu skulu kjarabæturnar verða afturvirkar. Þetta fer eftir því hversu lengi samningarnir hafa verið lausir fram yfir sex mánuði, þ.e. hálft ár. Þetta hefur ítrekað gerst í þjóðfélagi okkar á undanförnum árum. Stórir hópar fólks hafa verið án kjarasamninga mánuðum saman. Ég minni á sjómenn og núna höfum við dæmið um kennarana. Ef frumvarp okkar hefði verið orðið að lögum í dag og ef það hefði verið samið í deilu kennara núna hefðu kjarabætur kennara sjálfkrafa náð til 1. maí á þessu ári. Ég vildi bara nota tækifærið, frú forseti, til að nefna þetta.

Ég vil að lokum ítreka að við í Frjálslynda flokknum erum alfarið andvíg lagasetningum á kjaradeilur, alveg sama hvaða kjaradeilur um er að ræða. Við höfum ákveðið að við munum sitja hjá við afgreiðslu þessa frumvarps héðan frá hinu háa Alþingi og við vísum ábyrgðinni á þessum gjörningi alfarið á hendur ríkisstjórnarinnar.