131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[11:56]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Get ég fengið svar við þessari spurningu: Er hæstv. menntamálaráðherra þeirrar skoðunar að hægt sé að réttlæta það að grunnskólakennarar séu með lægri laun en framhaldsskólakennarar? Þetta er einföld spurning.

Sömuleiðis: Ef þessi lagasetning skýtur vandanum einungis á frest, er hún þá enn þeirrar skoðunar að það verði einhvern tíma hægt að leysa þetta mál með öðru móti en því að setja meiri peninga til lausnar deilunni?

Ég verð að fá svör við þessu, frú forseti, vegna þess að ítrekað hefur verið gengið eftir afstöðu hæstv. ráðherra. Hún hefur verið á stöðugum flótta í þessu máli. Það er komið að því að æðsti yfirmaður menntamála láti í ljósi afstöðu sína. Hún getur ekki verið með yfirlýsingar í fjölmiðlum út og suður en skorast undan því að svara beinum spurningum hér þegar við erum að ræða grundvallaratriði í deilunni.