131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:00]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég mun gera allt sem ég get til að fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga verði góð eftir sem áður og það verði reynt að gera upp á milli ríkis og sveitarfélaga. En ég hef margsagt að ég tel óeðlilegt að veita fólki í samfélaginu, hvort sem það eru kennarar eða fjölskyldur, falsvonir með því að grípa til þess ráðs að segja að það þurfi bara meiri peninga inn í akkúrat þessa deilu.

Hvað með framtíðina? Hvað með næstu kjaradeilur? Á þá ríkið aftur að leggja fjármagn inn í þær deilur? Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur í samvinnu við sveitarfélögin til að þessi skylda verði uppfyllt. Það verður erfiðara með hverjum deginum sem líður en ég vil ítreka að fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga eru ekki liður í þessari umræðu.