131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:02]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Það er alveg ljóst, frú forseti, að kostnaðurinn við styttingu námstíma til stúdentsprófs verður gríðarlegur. Hann felst í megindráttum í því að gefin verða út ný námsgögn. Námsgögnin eru undir forræði ríkisins og það er ríkið sem að sjálfsögðu ber þann kostnað.

Í þeirri vinnu hef ég jafnan lagt mjög ríka áherslu á að kennarar fái tækifæri til að bæta við sig þekkingu ef þeir sjálfir kjósa svo til að búa sig betur undir þá breytingu sem í á að ráðast. Að sjálfsögðu ber ríkið líka þann kostnað því að endurmenntunin er á kostnað ríkisins. Við gerum ráð fyrir, í tekjuútreikningum varðandi áætlunina um styttingu námstíma til stúdentsprófs, að sá mikli kostnaður komi til með að falla á ríkið og það er eðlilegt og sjálfsagt.