131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:03]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir svarið. Auðvitað verður ríkið að borga það. Það þýðir að peningar koma frá ríkinu til sveitarfélaganna vegna þess að kostnaður sveitarfélaganna eykst mikið við þá breytingu.

Kennari hefur sagt: Það sem mátti ekki gera meðan ríkið annaðist grunnskólana er orðið að skyldu eftir að sveitarfélögin tóku við. Um þetta snýst málið, virðulegi forseti. Það hafa ekki fylgt með peningar frá ríkinu til sveitarfélaganna til að standa í því sem sveitarfélögin eru að gera betur en ríkið gerði í rekstri grunnskóla. Vonandi kemur því aldrei til sú hugmynd að færa skólana aftur til ríkisins. Það verður aldrei. En þessu hefur fylgt mikill kostnaður fyrir sveitarfélögin.

Ég segi það sem gamall sveitarstjórnarmaður að það hefur mjög hallað á sveitarfélögin í þessum samskiptum. Meginhlutinn af vandamálinu í dag er að sveitarfélögin eru ekki nógu vel í stakk búin. Ég kannski ræði það betur við hæstv. félagsmálaráðherra, ráðherra sveitarstjórnarmála, hér á eftir.