131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:04]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar eins og ýmsir, líka sveitarstjórnarmenn, að þegar gert var upp milli ríkis og sveitarfélaga hafi ekki fylgt með nægilegt fjármagn í upphafi. Hvað var síðan gert? Eftir að einsetningin komst á fóru sveitarfélögin aftur til ríkisins og sögðu: Gott og vel, einsetningin er okkur dýrari og ýmislegt annað. Þá lagði ríkið 1 milljarð kr. í viðbót inn í kerfið, til grunnskólanna og inn til sveitarfélaganna, svo við höfum það á hreinu.

Auðvitað er það líka þannig hjá sveitarfélögunum, sem gleymist mjög mikið í allri umræðunni þegar menn benda á að ríkið verði að leggja til meira fjármagn í deiluna, að þau þurfa að forgangsraða. Þau þurfa að ákveða hvort þau ætla að standa í hlutabréfakaupum eða ekki. Þau þurfa að ákveða hvort þau fari í risarækjueldi eða ekki. Þetta er spurning um forgangsröðun meðal sveitarfélaganna og á það hafa margir bæjarstjórnarmenn og sveitarstjórnarmenn bent.