131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:18]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það getur varla talist óeðlilegt að forustumenn ríkisstjórnarinnar gefi upp hvað þeir eiga við með lagagreininni, við hvað skuli miða. Það er ekki um svo margar stéttir að ræða þegar þessi grein er lesin vandlega, með samsvarandi menntun, ábyrgð, störf o.s.frv. Þetta hljóta menn að skrifa með ákveðnar stéttir í huga. Það getur ekki verið svo ábyrgðarlaust að verki staðið að menn hafi ekki velt því fyrir sér hvað dómurinn mun að lokum miða við.

Ég túlka þessa grein þannig að menn hljóti að lokum að ætla að miða við framhaldsskólakennarana. Það er sú stétt sem ætti að miða við. Fyrir þremur árum skildi verulega á milli þessara tveggja stétta, sem að mínu mati er ein og sama stéttin og á að búa við sambærileg starfskjör, að sjálfsögðu að teknu tillit til vinnutíma og annarra slíkra atriða. En kjörin hljóta að lokum að eiga að vera svipuð. Þannig túlka ég það og spyr því hæstv. ráðherra.