131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:20]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er ótrúlegt að hlusta á hæstv. ráðherra í ríkisstjórn Íslands tala um að ef samið verði við kennara muni það ógna þjóðarhag og efnahagsstefnan fara fjandans til.

Mig langar að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra út í það að áður en hann settist á þing var hann sveitarstjórnarmaður í Hveragerði. Hann var jafnframt varaformaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Samband íslenskra sveitarfélaga hafði sig í frammi þá — hefur að vísu mikið til þagnað síðan — í baráttunni um það þegar Alþingi breytti lögum þannig að einkarekstur gat færst yfir í einkahlutfélög. Við það töpuðu sveitarfélögin miklum fjármunum.

Núverandi formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur nefnt töluna 1–1,4 milljarða kr. í þessu sambandi. Hæstv. félagsmálaráðherra hefur líka talað um þessa tölu. Þess vegna langar mig, virðulegi forseti, að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra, ráðherra sveitarstjórnarmála: Hvað töpuðu sveitarfélögin miklu á þessari kerfisbreytingu og hvenær á að bæta þeim það?