131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:28]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram í umræðum, af hálfu ráðherra hæstv. ríkisstjórnar, að a.m.k. sumir þeirra séu þeirrar skoðunar að í reynd sé ekki réttlætanlegt að greiða grunnskólakennurum sömu laun og framhaldsskólakennurum. Um þetta stóð deila í morgun við hæstv. menntamálaráðherra vegna þeirra ummæla sem hún lét falla og lutu að þessu í sjónvarpi í gær.

Mig langar að spyrja hæstv. félagsmálaráðherra hvort hann sé sömu skoðunar. Eða mátti túlka orð hans hér áðan þannig að hann telji að það eigi að greiða grunnskólakennurum svipuð laun og framhaldsskólakennurum hafi þeir sömu menntun að baki?