131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[13:06]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála því eins og fram kom hjá hv. þm. að málið er einmitt alls ekki einfalt. Þetta snýst allt um að hér er ekki um einfalt mál að ræða, síður en svo, enda byrjuðu samninganefndir fyrir u.þ.b. níu mánuðum að reyna að véla um þessa samninga og hafa haldið yfir 70 fundi og ekkert hefur miðað. Afleiðingin er sú að hnúturinn er fastari og harðari en nokkru sinni.

Við erum ekki að fjalla um hálaunafólk. Við erum að fjalla um hóp sem hefur langt frá því há laun. Engu að síður hafa önnur verkalýðsfélög gefið út þá yfirlýsingu að ef gengið verði að ýtrustu kröfum þessa hóps séu almennir kjarasamningar lausir. Við vitum vel, herra forseti, hvaða afleiðingar það hefur í samfélaginu, það vita allir, og þess vegna þarf að hafa heildarsýnina.

Ég tel og segi það enn og aftur að meðan sú afstaða er hjá öðrum verkalýðsfélögum að ekki megi virða menntun sem forgangsatriði í samfélagi okkar sé mjög erfitt að eiga við þetta mál. Þess vegna finnst mér skipta mjög miklu máli að slík verkalýðsfélög gefi einfaldlega út þá yfirlýsingu að þau uni þeim niðurstöðum sem vonandi fást sem fyrst í þessari kjaradeilu við kennara. Af hverju ættu þau að una því? Vegna þess að almennt á þeim vettvangi sem annars staðar hafa menn talað digurbarkalega um að mennt sé máttur, að menntun hafi meira gildi en flest annað í samfélaginu. En meðan afstaðan er með þessum hætti er mjög erfitt að sjá lausnina.