131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[13:22]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er ánægð að sjá að hæstv. forsætisráðherra er kominn í salinn og að bæði hæstv. menntamálaráðherra og forsætisráðherra sitja við umræðuna og finnst að félagsmálaráðherra ætti sömuleiðis að gera það. Þetta er grafalvarlegt mál, verið er að setja lög á kjaradeilu og þeir sem málið varðar eiga að sjálfsögðu að vera viðstaddir umræðuna.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi það í ræðu sinni að hún skildi ekki dagsetninguna 15. desember. Hv. þm. Hjálmar Árnason brást strax við og upplýsti að auðvitað væri hún vegna Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar.

Það er full ástæða til að benda á hvað þetta þýðir. Ísland er nefnilega með mikið samstarf innan Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar. Á þing þeirra mæta fulltrúar frá verkalýðshreyfingunni á Íslandi og frá félagsmálaráðuneytinu á Íslandi og margar samþykktir þessarar mikilvægu stofnunar rata í kjarasamninga eða lög á Íslandi þó að það sé ekki einhlítt. Komið hefur fyrir að íslenskri ríkisstjórn hefur þótt henta að það gerðist ekki.

Alþjóðavinnumálastofnun hefur ítrekað gagnrýnt íslensk stjórnvöld fyrir að grípa inn í kjaradeilu. Lagasetningin er grafalvarlegt mál eins og hverju sinni sem gripið er inn í kjaradeilur og allir skulu gera sér grein fyrir því að það að setja 15. desember og að mönnum sé gert að reyna að ná samningum fyrir þann tíma er til að fría sig gagnvart Alþjóðavinnumálaskrifstofunni og reyna að pressa samningsaðila á lokasprettinum. En dagsetningin 15. desember hefur önnur og alvarleg áhrif sem ég ætla að koma að síðar í ræðu minni.

Það er umhugsunarefni, eins og fram hefur komið aftur og aftur á þessum morgni, að ríkisstjórnin er loksins að bregðast við kjaradeilunni og þá bregst hún ærlega við með því að setja lög. Hún hefur algjörlega daufheyrst við stöðu sveitarfélaganna. Við þekkjum umræðuna eins og hún hefur verið í morgun: Ekki benda á mig, þetta kemur okkur ekki við.

Þess vegna ætla ég að fara örfáum orðum um það sem hefur gerst frá árinu 1997. Ég ætla líka að undirstrika það, af því að það var gert að umtalsefni í morgun, að þingmaður Samfylkingarinnar hafi talið að þetta væri einhver besti samningur sem gerður hafi verið, að flytja grunnskólann til sveitarfélaganna. Það var samstaða um að flytja grunnskólann til sveitarfélaganna. Það hefur líka verið ósk og vilji mjög margra í þessum sal að flytja fleiri verkefni til sveitarfélaganna og við vorum langt komin með að búa til samninga og svigrúm til að flytja málaflokk fatlaðra. Við skulum hafa þetta á hreinu og forsendurnar skýrar í umræðunni.

Af hverju gekk það ekki eftir að fleira væri flutt? Það er reynslan af stöðu sveitarfélaganna gagnvart ríkisvaldinu og því sem á eftir kom. Það var vitað í umræðunni á Alþingi að gerðar mundu verða meiri kröfur varðandi grunnskólahaldið þegar það væri komið frá ríkinu til sveitarfélaganna. Vitað var að haldið hafði verið í lágmarki endurnýjun og þjónustu innan skólanna sem nú yrði kallað eftir. Hvað ætli við höfum oft afgreitt lagabálka með „þrátt-fyrir“-ákvæði um um að þó að það eigi að vera svo og svo mörg börn í bekk verða þau samt þetta fleiri? Hvað ætli við höfum oft farið fram hjá lagasetningu í þessum sal varðandi m.a. grunnskólann?

Þess vegna er athyglisvert að sjá hvernig fjármál ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar hafa þróast frá árinu 1997, árið eftir að grunnskólinn fluttist til sveitarfélaganna. Þá voru útsvarstekjurnar 32,6 milljarðar kr. en tekjuskattur ríkisins 30,3 milljarðar, sem sé 2 milljörðum lægri en útsvarið. Var ekki full ástæða til að búast við að sú yrði þróunin áfram?

Árið 2003 var sveitarfélögunum heimilt að hækka útsvarið vegna nýrra verkefna um u.þ.b. 1% og það hækkaði um u.þ.b. 1% 1999–2001. En árið 2003 höfðu tekjuskattar engu að síður hækkað um 6 milljarða umfram útsvarið. Skattbyrði einstaklinga jókst um 15% á árunum 1997–2003, nánast allar þær auknu álögur fóru til ríkisins, eða um 14%, aðeins 1% kom í hlut sveitarfélaganna. Af 9 milljarða króna skattahækkun tekjuskatts og útsvars fóru yfir 8 milljarðar til ríkisins og 700 milljónir til sveitarfélaganna.

Það er ekkert hægt að komast fram hjá þessu þegar við tölum um stöðu sveitarfélaganna til að sinna verkefnum vel eða bæta við verkefnum. Það er beinlínis ósæmilegt að fara fram hjá þessum tölum og ef einhver heldur að þær séu ekki réttar vil ég upplýsa að þær eru samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkisskattstjóra.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að mér hefur fundist vera nokkur hroki í umræðunni. Ég veit að hæstv. menntamálaráðherra er í vanda í umræðunni og ég hef fullan skilning á því og er sammála því að allir, ríki og sveitarfélög, eiga að forgangsraða í ranni sínum. Mér finnst samt veikt þegar komið er hingað á ögurstundu og sagt: Sveitarfélög eiga ekki að vera að kaupa hlutafélög eða fara í risarækjueldi, þau eiga að forgangsraða. Bíðum við, við hvern er verið að tala? Hafnarfjörð, Kópavog eða Reykjavík? Þó að það finnist eitt og eitt dæmi um að menn hafi ekki verið að fara út í réttu verkefnin á þetta ekki við.

Ég ætla ekki að fara út í ræðu hæstv. félagsmálaráðherra, mér fannst hún ekki góð og hv. þm. Samfylkingarinnar, Kristján L. Möller, leiðrétti það ágætlega í andsvörum við hæstv. ráðherra.

Það eru sex sveitarfélög sem nýta ekki allt útsvarið, en það er yfirleitt nýtt að fullu. Ríkið hugsar alltaf um sitt, það tekur alltaf sitt af öllu. Þannig er það líka með kennarana núna í verkfalli. Reiknaðir eru skattar af greiðslum til kennara úr verkfallssjóði. Þetta eru nauðþurftagreiðslur. 200 milljónir hafa runnið úr þeim sjóði til ríkisins í skatttekjur af þeim takmörkuðu fjármunum sem á að nota til að styrkja heimilin í nærri átta vikna verkfalli. Ríkið hugsar um sitt. Ríkið kann að forgangsraða.

Virðulegi forseti. Bæði forsætisráðherra og félagsmálaráðherra töluðu um bréf frá umboðsmanni barna. Þeir voru mjög uppteknir af alvarlegri stöðu sem kom fram í bréfi frá umboðsmanni barna og bréfi frá Heimili og skóla. Ég spyr: Hvar hefur þetta fólk verið? Ekki þurfum við nein bréf. Við höfum fylgst með því dag eftir dag og viku eftir viku að verkfallið hefur verið foreldrum erfitt, að verkfallið er ekki ásættanlegt. Verkfallið er gífurlega alvarlegt fyrir skólabörnin í landinu og enginn veit hvaða áhrif þessi kjaradeila hefur haft og mun hafa fyrir námsárangur vetrarins. Við þurfum engin bréf. Það er allt að því ömurlegt að þegar menn koma að þessu alvarlega máli til að réttlæta sig skuli þeir koma og lesa upp úr þessum bréfum. Þá fyrst skynjuðu þeir vandann þegar þeir lásu bréfin.

Ég ætla aðeins að tala um kennarana. Þannig er með stjórnmálamenn að það er afskaplega vinsælt að hafa við þá viðtöl. Þeir tala um uppvöxtinn og bakgrunn, lífið og tilveruna. Í nærri hverju einasta viðtali er talað um lífið í skólanum og kennarana, þessa góðu kennara sem mótuðu þá, gáfu þeim veganesti út í lífið, sem voru svo sterkir og mikil fyrirmynd.

Ég get líka haldið slíkar ræður. Ég ólst upp á Ísafirði við frábæra skóla og næstum allir sem þaðan koma, en margt fólk sem hefur látið til sín taka í samfélaginu kemur úr þeim ágæta bæ. Það fólk talar um uppvöxtinn á sínum tíma, góðu skólana og kennarana sem mótuðu lífshlaupið áfram. Þegar ég var að alast upp höfðu kennarar nokkuð góð laun. Það var nefnilega þannig, eins og einhver hér í morgun talaði um, að kennarar eru líka almenningur. Kennarar voru almenningur. Börnin komu frá svipuðum heimilum, öll börn í þessum hefðbundna bæ. Kennarar voru fremur vel launaðir. Þeir voru virt stétt. Það var litið upp til þeirra. Þeir voru hinn aðilinn sem mótaði börnin til viðbótar því sem fjölskyldan gerði og gaf í veganesti.

Hvað hefur gerst? Staða þessarar stéttar hefur breyst. Launin hafa lekið niður og jafnvel virðinguna skort, virðingu samfélagsins og þeirra sem um eiga að véla í kjörum stéttarinnar. Ég hef miklar áhyggjur af því hvernig mál hafa þróast og að þessi mikilvæga stétt hefur dregist aftur úr í almennum launasamanburði. Það er verkefnið núna. Vandamálið er hvað hún hefur dregist aftur úr. Annars vegar er hægt að miða við stétt sem loksins fékk launaleiðréttingu, þ.e. framhaldsskólakennarar, og hins vegar er kallað eftir því að ekkert megi gera umfram þróun á almennum launamarkaði. Hingað og þangað. Þetta verður erfitt mál, líka fyrir Kjaradóm.

Það er mjög alvarlegt mál hvernig komið er í dag og það frumvarp sem við erum að ræða er mjög erfitt fyrir kennara. Eftir langvarandi kjaradeilur og verkföll hefur oft verið reynt að bæta skaðann fyrir þá sem voru í verkfalli, stundum með meiri vinnu sem hefur þurft til að vinna upp tapaða framleiðni í verkfalli og oftast nær hefur komið kjarabót strax og kjaraleiðréttingin hefur eiginlega komið um leið og verkfalli lauk.

Samningarnir voru lausir í mars. Sumarið, ég ætla að leyfa mér að halda því fram, var illa nýtt til viðræðna. Verkfallið er næstum orðið átta vikur og nú munu kennarar mæta til starfa án nokkurrar úrlausnar, það er launatap í nærri tvo mánuði. Þeir munu koma til starfa og það er engin umbun, engin kjarabót og ef til vill engin niðurstaða fyrr en í lok mars í vor. Þegar niðurstaða loksins fæst í Kjaradómi verður launa- og kjaraleiðréttingin frá 15. desember. Af hverju? Af því að þetta er ekki í fyrsta sinn sem ríkisstjórnin setur lög á kjaradeilur. Af því að ríkisstjórnin er búin að fá skammir og ákúrur frá Alþjóðavinnumálastofnuninni fyrir hvernig hún heldur á málum og hvernig hún hagar sér gagnvart þegnum sínum. Þess vegna eru menn búnir að setja 15. desember. Það þýðir að til viðbótar átta vikna launamissi munu kennarar ekki fá launaleiðréttingu fyrr en frá 15. desember. Þetta er áfall. Þetta er áfall kjaralega séð, en ekki síður tilfinningalega. Þetta snýst um það m.a. þegar maður er búinn að vera í átta vikna verkfalli og sýna samstöðu og trú á að það hafi einhverja þýðingu, að þurfa að hunskast til starfa upp á ekkert um sinn. Tilfinningalega, virðingarlega og algjörlega sálfræðilega er þetta vont mál.

Þess vegna eru það mín lokaorð, virðulegi forseti, að beina því til stjórnarmeirihlutans og allsherjarnefndar að þessi þáttur málsins verði skoðaður alveg sérstaklega og hvort ekki sé full þörf á því, þrátt fyrir Alþjóðavinnumálaskrifstofuna, að flýta þessari gildistöku. Svona getum við ekki hagað okkur, fólkið í þessum sal.