131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[13:37]

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna síðustu orða hv. þingmanns held ég að það sé nú alveg ljóst að þeir þingmenn sem koma að þessari lagasetningu, að setja lög á verkfall kennara, geri það ekki öðruvísi en með þungu hjarta. Ég held að það geti ekki vafist fyrir neinum.

Hins vegar langar mig að koma í andsvar vegna þess að tíðrætt hefur verið um skiptingu fjármagns milli ríkis og sveitarfélaga varðandi þessa deilu. Því langar mig að spyrja hv. þingmann hvað hún segi um þá staðreynd að frá 1998 hefur fjármagn sem sveitarfélögin hafa eftir að grunnskólinn fór yfir til sveitarfélaganna aukist, skatttekjur sveitarfélaganna hafa aukist úr rúmum 30 milljörðum í yfir 100 milljarða á næsta ári. Þannig að sveitarfélögin hafa ekki farið varhluta af þeirri velmegun sem er í landinu og hafa fengið sinn skerf af skatttekjum landsmanna. Á þeim stutta tíma, þ.e. frá 1998 til 2004, hafa skatttekjur, útsvarið, hjá sveitarfélögunum aukist þrefalt. Mig langar að heyra álit hv. þingmanns á þessari staðreynd.