131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[13:39]

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að víkja að fyrra atriðinu sem þingmaðurinn nefndi. Ég gef mér það að hvar sem við erum í flokki og hvort sem við erum í stjórn eða stjórnarandstöðu sé öllum þungt um hjarta að setja lög á kjaradeilu. Hins vegar var ég mjög að gagnrýna hvernig málið var kynnt hér og með hvaða hætti menn fóru í ræður sínar með þessu frumvarpi og stendur hvert einasta orð.

Ekki veit ég hvaða tölur hv. þingmaður er með, en ég gerði grein fyrir þróun skatttekna ríkisins af tekjuskatti annars vegar og útsvarinu hins vegar og þar hallar mjög á, það liggur alveg ljóst fyrir. Það eru opinberar upplýsingar að árið 1997, ári eftir að grunnskólinn fluttist til sveitarfélaganna, var útsvarið 32,6 milljarðar kr. en tekjuskatturinn var minni, eða um 30,3 milljarðar. Árið 2003 höfðu tekjuskattarnir hækkað um 6 milljarða umfram útsvar og skattbyrði einstaklinga hefur aukist um 15% á árunum 1997–2003, sem er náttúrlega ofboðslega gaman að sjá hjá núverandi ríkisstjórn sem alltaf er að tala um að hún sé nú að taka tillit til kjara almennings, en af þessum 15% auknu álögum fór afskaplega lítið til sveitarfélaganna, eða 700 milljónir á móti yfir 8 milljörðum til ríkisins. Þetta bendi ég alveg sérstaklega á og varðar útsvarið og skattinn, en þar fyrir utan hefur verið bent á mjög margt sem hefur skekkst í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Þess vegna ætla menn að fara að ræða saman, loksins, en hefðu átt að vera að gera það í vor áður en þessi deila kom til.