131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[13:41]

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þær upplýsingar sem ég hef eru réttar. Tekjur sveitarfélaganna hafa þrefaldast á þessum tíma en þau hafa ekki tekið yfir aukin verkefni. Þannig að svigrúm þeirra til að takast á við verkefnin, sem var þá grunnskóli til sveitarfélaga, jókst verulega. Það er einnig alveg ljóst að sveitarfélögin hafa tekið myndarlega á grunnskólanum og hafa eflt hann. Þau hafa fjölgað kennurum um 30%, þau hafa fjölgað öðrum starfsmönnum um 50%, en á sama tíma hefur börnum í grunnskólum fjölgað um 6,5%. Svigrúm sveitarfélaga til að takast á við þetta aukna verkefni hefur því verið töluvert.

Ég vildi draga þetta inn í umræðuna einmitt vegna þess að það hefur svo mikið verið kallað á ríkisvaldið í þessari deilu og sagt að sveitarfélögin hafi ekki nægt fjármagn. Ríkið getur ekki tekið ábyrgð á því hvernig sveitarfélögin haga sínum málum, en vissulega hafa þau fengið auknar tekjur til að standa undir ákvörðunum sínum.

Ég hef hins vegar í störfum mínum á Alþingi, m.a. í fjárlaganefnd, ekki hitt einn einasta forstöðumann ríkisstofnunar eða forstöðumann sem hefur yfir fjármagni að ráða sem ekki vildi hafa meira. (Gripið fram í: ... frá ríkinu.) Það er bara þannig.