131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[13:45]

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum eða öðru nafni lög á vinnudeilu kennara og sveitarstjórna. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þingmenn Ögmundur Jónasson og Kolbrún Halldórsdóttir hafa gert áður í umræðunni skýra grein fyrir afstöðu okkar flokks til þessa máls, þeirri afstöðu okkar að við teljum að lagasetning sú sem hér er verið að boða sé röng. Við höfum lagt áherslu á að þetta mál eigi að vinna með öðrum hætti, það eigi að koma yfirlýsing frá ríkisstjórninni um að sveitarfélögunum verði gert kleift fjárhagslega að takast á við að greiða starfsmönnum sínum þokkaleg og góð laun. Um þetta snýst málið.

Ráðherra hefur jú sagt að þetta snúist ekki bara um peninga og það er alveg hárrétt. Þetta snýst líka um gildismat. Þetta snýst um mat á því hvar í röðina við setjum velferðarkerfið, menntun, heilbrigðismál og öll önnur velferðarmál — það er alveg hárrétt. Það snýst um þessa forgangsröðun — eða hvort við viljum láta önnur sjónarmið ráða ferð eins og ríkisstjórnin gerir, t.d. skattalækkanir á hátekjufólki. Það er afar brýnt af hálfu ríkisstjórnarinnar að keyra í gegn hér skattalækkanir upp á 4–5 milljarða á næsta ári, skattalækkanir sem koma fyrst og fremst þeim til góða sem hafa hæstu tekjur.

Hafa þessar skattalækkanir engin áhrif á þenslu eða verðlagsáhrif í þjóðfélaginu? Jú, þær þýða það einmitt að þeir 4–5 milljarðar kr. sem fara í skattalækkanir verða ráðstöfunarfé fyrir þá hópa samfélagsins sem hæstar hafa tekjur til þess að auka einkaneyslu. Ekki er minnst á það í greinargerð með frumvarpinu að skattalækkanirnar eru þær mest þensluhvetjandi aðgerðir sem ríkisstjórnin er að grípa til. Allar aðgerðir hennar sem snúa að því að mæta ekki eðlilegum kröfum launfólks og skerða eðlilegt og nauðsynlegt fjármagn til velferðarþjónustunnar miða að því að mæta þessum skattalækkunum.

Slíkri forgangsröðun erum við ekki sammála. Að sjálfsögðu á skattbyrðin ekki að vera hærri en nauðsynlegt er en númer eitt er að jafna skattbyrðina. Ef núverandi ríkisstjórn hefði lagt það til að lækka hlutdeild skatta á lægstu tekjur þá hefði í sjálfu sér verið lofsvert að skoða það. En þegar stefnan er alfarið sú að lækka skatt á hæstu tekjur og það sett númer eitt í forgang í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar þá er ekki hægt að vera því sammála.

Við sjáum líka að í samfélaginu skammta sumir aðrir sér laun og tekjur. Það eru nægir peningar til. Menn tala hér um heimsmet í hagnaði banka og fjármálastofnana og ýmissa slíkra stofnana. Þetta fjármagn hefur líka áhrif á neyslu og þenslu í samfélaginu, annað væri það nú. Hvernig væri að beita aðgerðum þannig að þessum kröfum yrði stillt í hóf og nokkuð af þessu fjármagni yrði líka til ráðstöfunar til þess að styrkja kjör fólks sem hefur allt of lágar tekjur víða í samfélaginu, kennara og annarra hópa sem eiga á næstunni lausa samninga og vilja fá bætt kjör.

Þessi harða stefna ríkisstjórnarinnar setur þetta mál í hnút. Ef ríkisstjórnin kæmi nú t.d. og segði: „Við viðurkennum að þetta eru veruleg mistök. Þetta eru efnahagsleg mistök. Það eru stjórnunarleg mistök að ætla að fara að keyra fram skattalækkanir við þessar aðstæður. Við viðurkennum það. Við skulum afturkalla þær.“ Það væri spor í rétta átt. Það væri spor í átt til þess að glöggva sig á staðreyndum og líka til að viðurkenna að þar í liggur leiðin til að leysa þessa kjaradeilu.

Deilan snýst því um gildismat og forgangsröðun stjórnarflokkanna sem leggja meginkapp á að hygla og bæta kjör þeirra sem best hafa kjörin og standa gegn rétti þeirra sem verri kjör hafa. Þetta er málið í hnotskurn.

Hér hefur rætt um að það hafi verið happaaðgerð að flytja grunnskólann frá ríki til sveitarfélaga og að hann hafi batnað svo og svo mikið vegna þess. Ég tek alveg undir það að grunnskólinn hefur að sjálfsögðu batnað. Hann hefur eflst og hann hefur styrkst og hann hefur skilað æ betra starfi. En það er mjög ósanngjarnt að segja að ef skólinn hefði verið í höndum ríkisins þá hefði ekkert gerst, þ.e. að bera þetta saman við það að allt hefði staðið kyrrt. Það er alveg fráleitur samanburður og ósanngjarn. Auðvitað hefði þar líka átt sér stað þróun og efling þannig að það er rétt að líta málin réttum augum.

Það er líka alveg ljóst, og ég held að menn deili ekki um það, að miðað við núverandi umfang starfs grunnskólanna hefur ekki verið fylgt eftir þeirri fjárþörf sem nauðsynlegt er til að standa undir því starfi sem þar er nú unnið. Þegar grunnskólinn var færður frá ríki til sveitarfélaga hafði hann verið sveltur um langt árabil. Það hafði líka verið slíkt efnahagslegt ástand í samfélaginu að laun voru almennt frekar lág og í því andrúmslofti og í þeirri stöðu var grunnskólinn fluttur. Síðan verður efnahagslegur vöxtur í samfélaginu og flestar stéttir fá verulega aukningu á sínum tekjum og starfsemi vex. Þá er eðlilegt að grunnskólakennarar fylgi eftir því. Annað væri það nú með þá ábyrgð sem þeir axla og hið mikilvæga starf sem þeir vinna.

Frú forseti. Þess vegna er alveg makalaust að sjá þessa setningu á bls. 3 í greinargerð frumvarpsins. Ég ætla að lesa hana, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að fylgja aðhaldssamri efnahagsstefnu til að tryggja áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu á næstu árum þrátt fyrir aukin umsvif vegna stóriðjuframkvæmda.“

Bíðum við. Stóriðjuframkvæmdirnar eru jú hitt meginmál núverandi ríkisstjórnar. Öllum sökum á að skella á stóriðjuframkvæmdirnar. Það verður að skera niður velferðarkerfið vegna stóriðjuframkvæmdanna. Það verður að skera niður samgöngumál vegna stóriðjuframkvæmda. Það verður að halda niðri launum kennara vegna stóriðjuframkvæmda.

Skiptar skoðanir eru um mikilvægi stóriðjuframkvæmdanna og hvort þetta sé rétt stefna í atvinnumálum Íslendinga. Ég er andvígur þeirri stefnu í atvinnumálum Íslendinga, stóriðjustefnunni sem hér er keyrð upp, ég tala nú ekki um ef það á að gera hana að sökudólgi fyrir því að ekki sé hægt að greiða eðlileg laun, ef menn verða að sitja það af sér og það verði að hækka komugjöld á heilsugæslustöðvar og sjúkrahús vegna stóriðjuframkvæmda o.s.frv. til þess að uppfylla þessar aðhaldskröfur ríkisstjórnarinnar.

En þessar aðhaldskörfur eru þó ekki meiri en svo að hægt er að lækka skatta um 5 milljarða króna á hátekjufólki. Það sér hver heilvita maður að þarna rekur sig eitt á annars horn eins og graðpening hendir vorn, eins og máltækið segir.

Þau atriði önnur í frumvarpinu sem hafa verið gerð hér að umtalsefni, sérstaklega af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þingmönnum Ögmundi Jónassyni og Kolbrúnu Halldórsdóttur, lúta einmitt að ákveðnum atriðum í þessu samhengi. Í fyrsta lagi er samningsaðilum gert að halda áfram að reyna að semja fram til 15. desember. Ef það á að gerast án þess að nokkurt annað útspil komi af hálfu ríkisstjórnarinnar í þetta mál sé ég ekki annað en að það sé fullkomlega út í bláinn að koma með svona ákvæði. Eina sem það hefur í för með sér er að tefja aðra vinnu málsins sem menn eru hér að setja í gang.

Á hitt vil ég líka benda að ekki er gert ráð fyrir því að gerðardómurinn ljúki störfum fyrr en 31. mars á næsta ári, fari þetta mál þann veg. Annað heilt skólaár á að líða án þess að kennarar viti hvað til síns friðar heyrir í endalokum þessa máls í slíkum farvegi. Er einhver þörf á því? Hvað hafa þessar samninganefndir verið að gera allt yfirstandandi ár? Ég veit ekki betur en að kennarar hafi lagt fram sína áætlun snemma í upphafi þessa árs. Það voru greidd atkvæði um verkfall ef samningar hefðu ekki tekist. Þau atkvæði voru greidd á síðastliðnum vetri, eins og lög gerðu ráð fyrir, þannig að allt hefur legið fyrir. Öll megingögn sem lúta að þessu máli hljóta því að liggja fyrir þannig að gerðardómur ætti ekki að þurfa næstu sex mánuði til að komast að niðurstöðu. Það er bara fráleitt því eftir að málin eru komin í þennan farveg sem enginn vill að þau fari í þá er líka eins gott að þessu ljúki sem fyrst og niðurstaða náist.

Ég legg því til að hv. allsherjarnefnd skoði rækilega hvort þessar tímasetningar ætti ekki að færa fram. Ég sé ekki annað en að gerðardómur gæti verið búinn að ljúka vinnu sinni um áramót. Gögnin ættu að liggja fyrir þannig að það sé hægt.

Ég legg áherslu á að menn skoði líka t.d. hvaða stöðu kennarar verða í næsta sumar. Það er óeðlilegt að það sé bundið í lögum að gerðardómur eða nýr kjarasamningur megi ekki taka tillit til þess sem á undan er gengið og að samningurinn taki gildi fyrr, t.d. frá og með þeim tíma þegar samningar urðu lausir. Af hverju er verið að binda þetta í lögum? Þetta gæti þá líka verið frjálst fyrir gerðardóminn til þess að nota í niðurstöðum sínum. Svona lagabeiting og rammi, þessi valdbeitingarrammi sem settur er utan um þennan gjörning er bæði ósanngjarn og að mínu viti fullkomlega óþarfur og gerir ekkert annað en að sýna ástæðulausan, að mínu viti, hroka í þessu erfiða máli sem við stöndum frammi fyrir og viljum öll að leysist sem fyrst.

Frú forseti. Ríkisstjórnin verður að gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð sem hún stendur frammi fyrir. Hún verður að koma með útspil á næstu klukkutímum um hvernig hún ætlar að styrkja tekjustofna sveitarfélaganna. Það er ekki bara gagnvart þessu eina verkefni sem lýtur að launum kennara heldur öllum öðrum viðfangsefnum sveitarfélaganna sem að stærstum og langmestum hluta eru núna orðin laun starfsmanna þeirra. Gengið hefur verið á tekjustofna sveitarfélaga og í tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga hefur stöðugt hallað á sveitarfélögin. Sveitarfélögin geta ekkert samið því að þau eru bundin af lögum frá Alþingi með tekjustofna sína. Þau eru því gersamlega í viðjum Alþingis og ríkisstjórnar um það hvernig þau geta brugðist við og tekið á sínum málum. Þess vegna á að ræða málin fyrst og síðast hér.

Frú forseti. Ég ítreka að ríkisstjórnin á að falla frá þessum skattalækkunum sínum. Þær eru hrokafull yfirlýsing við þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir. Þrátt fyrir skattalækkanir til hátekjufólks er því borið við að ekki sé hægt að semja við kennara um þokkaleg laun vegna þess að það valdi þenslu. Skattalækkunarstefna ríkisstjórnarinnar er einmitt þenslustefna sem sett er í forgang af ríkisstjórninni og þess vegna verður að halda hinum öllum niðri. Þeirri forgangsröðun og þessari stefnu erum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði andvíg. Það verður að víkja af henni til þess að við getum náð farsælli niðurstöðu í þeirri kjaradeilu sem við erum að fjalla um þannig að kennarar fái störf sín eðlilega metin fyrir samfélagið bæði í formi virðingar og launa.