131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[14:42]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Það er hugsanlega hægt að segja að lagafrumvörp á kjaradeilur séu misvond og ef það er hægt er örugglega hægt að segja að þetta sé með allra verstu frumvörpum sem sést hafa. Fyrra atriðið sem ég ætla að benda á í því efni er ákvæði 2. gr. um 15. desember. Það hefur verið rakið í þessum ræðustóli eða bent á sem ástæðu fyrir þessari grein að ríkisstjórnin hafi fengið á sig viðvaranir frá Alþjóðavinnumálastofnuninni aftur og aftur og þurfi þess vegna að passa sig. Mér er því spurn: Heldur ríkisstjórnin að hún hafi fengið leyfi frá Alþjóðavinnumálastofununinni til að setja lög á kjaradeilur ef hún bara lætur smella í svipunni áður og hótar, og ef hún hóti og gefi svo smáráðrúm megi hún setja lög? Á maður að skilja þetta svo? Eiga þeir sem neyðast til að fara í verkföll í framtíðinni að búast við því að ríkisstjórnin taki sér ákveðinn tíma áður en í algert óefni er komið og láti smella í svipunni og telji sér síðan frjálst að setja lög þar á eftir?

Annað atriði sem snýr að þessu sama er að það er reynsla okkar að í þau skipti sem skollið hafa á verkföll í skólakerfinu eru það fyrstu viðbrögð þeirra sem þar starfa eftir að verkfall er leyst að skipuleggja skólastarfið upp á nýtt og hefja sem fyrst störf að því að reyna að bæta þann skaða sem orðinn er. Það er erfitt verk. Það er erfitt verk fyrir kennara, skólastjórnendur og það er erfitt verk fyrir börnin og í mörgum tilfellum er það ógerlegt verk að vinna slíkt upp.

Það er mat mitt að með ákvæðinu um að kjarabætur til kennara skuli ekki koma fyrr en 15. desember sé ríkisstjórnin að ákveða að endurbótastarfið, tilraunir til að bæta nemendum upp það sem þeir misstu af á þeim sjö vikum sem þeir hafa misst af í skóla, skuli frestast fram yfir áramót. Eða halda hæstv. ráðamenn hér, finnst þeim sanngjarnt að ætlast til þess að kennarar og skólastjórnendur vinni kauplaust eða á gamla taxtanum við að bæta upp það sem tapast hefur? Finnst þeim það sanngjarnt á sama tíma og hæstv. ríkisstjórn í gegnum skattkerfið hefur heimtað og heimt 200 milljónir í skatta af kennurum af þeim smánarlegu litlu verkfallsbótum sem kennarar hafa fengið í sinn hlut og geta að sjálfsögðu varla dregið fram lífið á hvað þá heldur staðið við allar þær skuldbindingar sem venjulegt fjölskyldufólk hefur í sínu daglega lífi?

Þarna er á ferðinni stórskaðlegt ákvæði í því frumvarpi sem hér liggur fyrir og ég ætla rétt að vona að ríkisstjórnin sé ekki svo heillum horfin að hún geti ekki tekið þetta til endurskoðunar og reynt að bæta úr. Það hljóta allir að sjá hversu ömurlega vitlaust þetta ákvæði er. Þetta með ILO er bara til að pissa í skóinn sinn og dugir hugsanlega einu sinni en örugglega ekki aftur og er ekki þess virði að hætta því sem ég er hér að benda á fyrir það atriði.

Hitt atriðið sem hefur verið komið mjög inn á í dag líka er 3. gr., þ.e. viðmiðunin. Það er alveg dagljóst að grunnskólakennarar hafa alltaf miðað sig við framhaldsskólakennara. Það kom reyndar fram í máli hæstv. menntamálaráðherra í morgun, og það er mjög mikilvægt, að hún, frú Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, telur eðlilegt að grunnskólakennarar miði sig við framhaldsskólakennara. Það kom fram í máli hennar og það ber að hafa í huga.

Það kom reyndar líka fram í máli hennar í andsvörum við mig að hún telur ...

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmann um að ávarpa hæstv. ráðherra tilhlýðilega.)

Þakka þér fyrir, frú forseti. Það kom líka fram í máli hæstv. menntamálaráðherra að hún telur að grunnskólakennarar eigi ekki að hafa lægri laun en framhaldsskólakennarar, ekki að hafa miklu lægri laun var það reyndar, og það er líka mjög mikilvægt og ber að halda til haga. Ég geri mér vonir um að orð og skoðanir hæstv. menntamálaráðherra hafi mikið vægi í þessu efni þegar svo er komið sem við vitum, sérstaklega þar sem við vitum að það er jú ríkið sem lagði línurnar í þessari viðmiðun, þ.e. í launum og starfskjörum, vinnuumhverfi framhaldsskólakennara. Við erum ekki bara að tala um krónurnar sem kennarar almennt fá í vasann, við erum líka að tala um starfsumhverfi. Ég verð að segja að mér finnst ekki óeðlilegt að grunnskólakennarar vilji láta endurskoða kennsluskyldu sína eftir að hafa horft upp á þær breytingar sem voru gerðar á kennsluskyldu framhaldsskólakennara við síðustu samninga.

Ég ætla að minna á það enn og aftur að hér talar kona sem hefur reynslu af kennslustörfum, bæði á framhaldsskólastigi og grunnskólastigi. Eftir reynslu mína tel ég ekki mikinn mun á starfsaðstæðum grunnskólakennara og framhaldsskólakennara og ætti heldur ekki að vera á launum.

Hér hefur líka komið fram að búið var að ná samkomulagi milli viðsemjenda um allt nema launaliðinn. Það er launaliðurinn sem stendur út af og þar eru framhaldsskólakennarar þeir sem horft er til. Ábyrgð ríkisvaldsins í þessu efni er algjörlega ótvíræð, bæði fagleg og fjárhagsleg, og þetta ástand hefur ríkisstjórnin kallað yfir okkur landsmenn með viðmiðunum sem hún hefur sett og ástandinu í landsmálum, þ.e. horfum í þróun verðbólgunnar og því hvernig staðan er hjá okkur.

Það er tómt mál að tala um frið á vinnumarkaði, frið í skólunum, nema samið verði við kennara og þeir fái verulegar launahækkanir. Mér finnst sorglegt að upplifa hvað eftir annað þá vanþekkingu sem birtist í ræðustóli Alþingis á starfsaðstæðum og störfum kennara, og hversu ósönn mynd er dregin upp af launakjörum þeirra. Nokkrir kennarar eru búnir að birta launaseðlana sína opinberlega. Það er búið að rekja hér úr ræðustóli hvað eftir annað hvernig launakjör kennara eru í raun og veru en samt er verið að reyna að slá ryki í augu almennings með því að halda fram allt öðru en staðreyndunum. Það er ekki sanngjarnt gagnvart kennurum.

Hæstv. menntamálaráðherra talaði í morgun um hversu mikilvægt það væri að ná varanlegum friði við kennara. Því miður verð ég að segja að það hvernig línur eru lagðar í þessu frumvarpi benda ekki til þess að hugur fylgi máli eða a.m.k. hefur hugsunin náð ansi skammt á ýmsa lund við samningu þess.

Um leið og ég ítreka mikilvægi þess að það atriði sem ég benti á í 2. gr. varðandi 15. desember verði tekið til endurskoðunar og að viðmiðunin sé rétt við ákvörðun launakjara kennara ætla ég benda á að kennarar hafa enn þá eitt úrræði og það úrræði heitir uppsagnir.

Ábyrgð stjórnvalda er mikil í þessu efni. Ætla þau að stefna skólastarfinu í enn þá meiri óvissu og hættu en það er nú þegar með því að knýja kennara til uppsagna í stórum stíl? Satt að segja, frú forseti, sýnist mér að nákvæmlega það muni gerast á næstu dögum ef þetta frumvarp fer frá okkur eða verður að lögum eitthvað í líkingu við það sem það er núna.