131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[14:53]

Þuríður Backman (Vg):

Frú forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafnar alfarið lagasetningunni sem hér er verið að boða. Við fordæmum aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar í þessu máli sem hefur leitt til þessarar alvarlegu stöðu.

Nú í haust hefur verið vísað til þess í umræðum á Alþingi að hér eigi ríkisstjórnin og ríkissjóður ekki að koma að, málið sé í réttum farvegi, það sé alfarið mál sveitarfélaganna og grunnskólakennaranna og það eigi ekki að grípa inn í samningaferlið. Það væri hægt að taka undir þau orð ef allt væri með eðlilegum hætti en það hefur verið vitað í marga nánuði að staða sveitarfélaganna er ekki með eðlilegum hætti. Fjárhagsstaða sveitarfélaganna er búin að vera lengi mjög alvarleg og mörg hver ramba á barmi gjaldþrots. Þó að lagaramminn sé réttur, skipuð sé launanefnd sveitarfélaganna og að rekstur grunnskólans sé alfarið á ábyrgð sveitarfélaganna þurfa sveitarfélögin fjámagn til þess að geta staðið undir rekstri sínum. Það er vitað og það er staðreynd að það hefur verið rangt gefið og að aukin verkefni, aukin ábyrgð og lagasetningar frá Alþingi sem hafa sett fleiri verkefni yfir á sveitarfélögin valda því m.a. að fjárhagur þeirra er mjög erfiður. Sum sveitarfélög eru það illa sett að allt að 70% af rekstrarfé hefur farið í rekstur grunnskóla í einu sveitarfélagi. Það segir bara hvað reksturinn er orðinn þungur.

Með vísan til þess er það á ábyrgð ríkisvaldsins að hafa ekki farið í þá vinnu sem lá fyrir, og liggur fyrir, að það verður að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Sú vinna sem hefur verið í gangi — hún er mjög slöpp og hefur illa verið haldið á málum um að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga — hefur eingöngu verið í þeim farvegi að endurskoða verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með sameiningar sveitarfélaganna til hliðsjónar en ekki til þess að fara yfir stöðuna eins og hún er í dag og leiðrétta tekjustofna sveitarfélaganna miðað við núverandi stöðu áður en farið er þá yfir í fleiri verkefni. Það verður að gera og ef það er ekki gert verða mál eins og þessir samningar algjörlega í pattstöðu.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viðurkennum og skiljum þann mikla vanda sem við stöndum öll frammi fyrir, samninganefnd, kennarar, ríkisstjórn og heimilin í landinu, yfir því langa verkfalli sem nú hefur staðið og að það þurfi að leysa það. Þetta er ekki leiðin til að leysa deiluna. Það þarf fjármagn til að hægt verði að leysa þessa deilu. Það liggur fyrir viljayfirlýsing ríkisstjórnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að fara í endurskoðun tekjustofnanna, skoða fjárhag verst settu sveitarfélaganna með tilliti til verkefnaflutninga og sameiningar, eins og ég sagði áðan. Ekki þarf nema aðra yfirlýsingu um að yfirfæra þegar um næstu áramót meira fjármagn til sveitarfélaganna, fresta hugmyndum um skattalækkanir og taka það fjármagn sem áætlað er í skattalækkanir yfir í liðinn tekjustofnar sveitarfélaganna.

Þar vil ég þá vísa til frumvarps sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt fram, og hefur verið nefnt hér af öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, um að breyta hlutfalli um 1%, að færa hlutfall af tekjum ríkisins yfir á útsvarstekjur sveitarfélaganna þannig að skatthlutfall einstaklinganna væri það sama en meira fjármagn rynni til sveitarfélaganna. Þetta er hægt að gera með einni yfirlýsingu og þar með væri hægt að klára þessa samninga með þeim hætti sem á að gera, að samningsaðilarnir sjálfir gangi frá samningum.

Fyrirhugaðar skattalækkanir eru verðbólguhvetjandi. Þær koma þeim tekjuhæstu mest til góða. Þær verða ekki notaðar til tekjujöfnunar eða kjarajöfnunar eins og væri þó hægt að gera og skattalækkanir ríkissjóðs verða ekki yfirfærðar á skattahækkanir hjá sveitarfélögunum.

Ég ætla ekki að hafa ræðu mína langa. Ég vil eingöngu draga það fram að ábyrgðin er hjá ríkisstjórn vegna þeirra vinnubragða hennar að viðurkenna ekki fjárhagsvanda sveitarfélaganna og fara ekki í miklu ákveðnari vinnu en verið hefur til að leiðrétta það sem hallar á sveitarfélögin og það núna strax en ekki í óljósri framtíð og hnýta það aftan í verkefnaflutning frá ríki yfir til sveitarfélaga. Ég gæti trúað að sveitarstjórnarmenn séu nokkuð órólegir yfir þeirri stöðu að eiga að taka á móti fleiri verkefnum þó svo að fundnir verði nýir tekjustofnar ef ekki verður áður búið að leiðrétta stöðuna sem þeir eru í í dag.

Hvað varðar frumvarpið sjálft, eins bagalegt og það er að það skuli liggja hér frammi, þá má segja að enn bagalegra sé hvað ákvæði þess eru þröng. Í 2. gr. er gerðardómi settur mjög þröngur rammi hvað varðar samninginn sem slíkan, þ.e. að hann eigi ekki að taka gildi fyrr en 15. desember. Það er ljóst að ef lögin verða samþykkt óbreytt fá kennarar ekki að neinu leyti bættan þann tíma sem þeir hafa staðið í ströngu verkfalli og þá er ekki möguleiki fyrir samningsaðila að semja á nokkurn hátt um þetta tímabil. Þarna tel ég að gengið sé of langt. Eins er langt í endanlegt uppgjör ef af þessu verður því þau eiga ekki að fara fram fyrr en 30. apríl 2005 og á þeim tímapunkti hafa samningar kennara verið lausir í meira en ár.

Í 3. gr. frumvarpsins er vísað í þróun á almennum vinnumarkaði. Þar er líka vísað til sambærilegra starfa og að samningar megi ekki hafa áhrif á kjarasamninga annarra svo verðbólgan fari ekki á skrið. Þetta er því hugsanlega nógu loðið til að hægt sé að vinna sig út úr þessu. En þarna er heldur ekki vísað ákveðið til kjarasamninga framhaldsskólakennara sem eru þó nærtækasta starfsstéttin að miða við.

Að lokum vil ég segja að miklar umræður hafa orðið í þjóðfélaginu í þessu langa og stranga verkfalli grunnskólakennara. Það er að von mín að þjóðinni séu ljós mikilvægi þessara starfa og að fjölskyldurnar í landinu sjái mikilvægi þess að hafa góða kennara og það tel ég að sé því það hefur verið lítil gagnrýni á svo langt verkfall af hálfu heimilanna og af hálfu foreldranna. Ég tel að það sé merki um að fjölskyldurnar í landinu þekki og viðurkenni mikilvægi þeirra starfa.

Það er mikið áhyggjuefni ef þessi gjörð verður til þess að starfsflótti verði úr stéttinni. Það hefur gerst áður og getur gerst enn. Við þurfum á vel menntuðu fólki að halda og til þess að svo sé þurfa kennarar að hafa viðunandi laun svo hjá þeim ríki starfsánægja og starfsfriður. Ég tel að í þessu langa og stranga verkfalli beri líka, mér liggur við að segja, að þakka kennurum fyrir að sýna mikla samstöðu í svo erfiðri stöðu því að þessi tími hefur örugglega reynt mjög á alla kennara, alla stéttina ekki síður en heimilin og börnin sem verkfallið hefur bitnað á. Það á ekki síður við stéttina sem slíka og alla þá sem hafa staðið í þessu stranga verkfalli. Það er von mín að samstaða kennara verði til þess að stappa stálinu í aðrar starfsstéttir og sýna að samstaða borgar sig.