131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[15:06]

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Um það frumvarp til laga sem hæstv. forsætisráðherra hefur nú flutt um að binda enda á kjaradeilu kennara og skólastjórnenda grunnskóla við sveitarfélögin er auðvitað margt hægt að segja við 1. umr. Ég ætla þó að reyna að fara yfir nokkra helstu galla þessa frumvarps.

Það er sannarlega rétt að þessi deila er í alvarlegum hnút og það er sannarlega rétt að maður hefur hálfpartinn hlustað á neyðarkall frá deilendum til ríkisstjórnar og Alþingis um að koma að þessum málum. Nægir þar að vitna í viðtal við Finnboga Sigurðsson, formann Félags grunnskólakennara, í útvarpi í morgun þó svo ég vilji taka skýrt fram að þar hefur hann í restina, sem hefur kannski ekki mikið verið talað um, fyrirvara um hvað í þessu stæði. Ég ætla að stoppa sérstaklega við það sem mér finnst hvað verst í frumvarpinu. Ég er þakklátur fyrir að hæstv. forsætisráðherra er hér og hlustar á það. Ég held að það hljóti að vera mikilvægt fyrir allsherjarnefnd að skoða þessi atriði hvað mest. Ég á auðvitað við það sem stendur í 2. gr. um dagsetningar. Það er annars vegar að gerðardómur skuli ekki taka til starfa fyrr en eftir 15. desember. Það má kannski segja að deiluaðilar sem hafa deilt lengi og ekki komist að samkomulagi eigi að horfa hverjir á aðra til 15. desember næstkomandi. Það er mjög alvarlegt mál.

Í öðru lagi á Hæstiréttur að tilnefna þrjá menn og auðvitað getur það enginn annar en Hæstiréttur. Hugsanir vakna hins vegar í huga mínum um Hæstarétt, vegna þess sem rætt hefur verið um hann á umliðnum mánuðum. Því ætla ég ekki að segja það sem upp í huga minn kemur nú en vona að við getum öll verið þannig að ekki þurfi að fjalla um það vegna þess að auðvitað á enginn að skipta sér af gjörðum Hæstaréttar.

Það að gerðardómur eigi ekki að skila af sér fyrr en 31. mars á næsta ári, þ.e. að ákveða kaup og kjör kennara í þessari deilu, er líka mjög alvarlegt mál og það sem er allra verst, finnst mér, er að það skuli vera forskrift frá ríkinu að samningurinn skuli gilda frá og með 15. desember næstkomandi.

Virðulegi forseti. Þetta eru þau atriði sem mér finnast allra verst í frumvarpinu og ég trúi ekki öðru en hæstv. ríkisstjórn beiti sér fyrir því að í allsherjarnefnd verði þetta lagfært vegna þess að það er alveg út í hött að hafa þetta svona bundið.

Því miður er það svo, virðulegi forseti, eins og hér hefur verið rætt, að tekjustofnamál sveitarfélaga gagnvart ríkisvaldinu blandast að sjálfsögðu mjög alvarlega inn í þessa deilu. Staða sveitarfélaganna er þannig að hæstv. ríkisstjórn hefur verið að hundskamma þau fyrir að fara fram úr og eyða um efni fram þó að eingöngu sé verið að reyna að sinna því sem löggjafinn hefur sett á sveitarfélögin. Þetta er mjög alvarlegt mál, og svo virðist vera, virðulegi forseti, að grunnskólakennarar sem eru í kjaradeilu núna séu því miður leiksoppar í þeim darraðardansi milli ríkis og sveitarfélaga.

Í athugasemdum um lagafrumvarpið er líka vitnaði í það að ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að fylgja aðhaldssamri efnahagsstefnu til að tryggja áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu á næstu árum þrátt fyrir aukin umsvif vegna stóriðjuframkvæmda. Eiga grunnskólakennarar líka að vera leiksoppar slíkra framkvæmda? Ég vil taka það skýrt fram að ég studdi þessar framkvæmdir. Ég hef alltaf gert það og er alveg sannfærður um að þær verða góðar þegar fram líða stundir og muni skjóta styrkari stoðum undir efnahagsmál okkar. En eiga grunnskólakennarar að bíða eftir því að þessu linni og á ekki að vera hægt að leiðrétta kaup og kjör þeirra vegna þessara þátta?

Virðulegi forseti. Í 3. gr. frumvarpsins er fjallað um hvað gerðardómur eigi að hafa til hliðsjónar og mér finnst það ágætt sem hér er sett fram að hluta þar sem segir, með leyfi forseta:

„Við ákvarðanir um laun félagsmanna skv. 1. gr. og önnur starfskjör þeirra skal gerðardómurinn einnig hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð ...“

Þetta er allt gott og góðra gjalda vert. Þarna er verið að vitna til framhaldsskólakennara. En svo kemur handbremsan ef svo má að orði komast til gerðardóms, með leyfi forseta:

„... en jafnframt gæta þess að stöðugleika efnahagsmála og forsendum annarra kjarasamninga sé ekki raskað.“

Hvaða skilaboð eru þetta til gerðardóms?

Virðulegi forseti. Í athugasemdum um 3. gr. frumvarpsins er fjallað um þetta atriði, með leyfi forseta:

„Miklu skiptir að gerðardómurinn taki á þessum þáttum með sanngirni og gæti samhliða að þjóðarhag í efnahagslegu tilliti.“

Virðulegi forseti. Þetta er fallega sagt. En er það ekki líka þjóðarhagur að búa þannig að grunnskólum landsins að við séum með ánægða kennara og höldum vel menntuðu fólki í störfum. Er það ekki spurning um þjóðarhag að leggja grunn að menntun barna okkar sem síðan fara í framhaldsskóla og svo áfram. Við höfum nú talað um það og ráðamenn í þessu landi hafa talað um það á tyllidögum að efla þurfi menntun o.s.frv. vegna þess að þjóðarhagur byggist á því og sannarlega er það svo. Í athugasemdum við 3. gr. gæti gerðardómur tekið tillit til þess að það eflir þjóðarhag að hafa ánægða kennara að störfum og þess vegna verði að leiðrétta kjör þeirra við þær viðmiðunarstéttir sem þeir fjalla hér um því lengi býr að fyrstu gerð eins og sagt er.

Virðulegi forseti. Hér hefur líka verið mikið vitnað, m.a. af hæstv. forsætisráðherra og öðrum ráðherrum sem hér hafa talað, í bréf umboðsmanns barna. Það er alveg hárrétt að þetta er mjög alvarlegt mál fyrir börn og þetta er mjög alvarlegt mál fyrir efnahagslíf og foreldra þar sem ýmislegt breytist í vinnu og öðru slíku vegna þess að það þarf að koma börnum fyrir, það þarf að passa þau o.s.frv.

En er þetta ekki líka mikilvægt mál fyrir kennara? Halda menn virkilega að kennarar fari í verkfall bara að gamni sínu? Þetta er jafnalvarlegt mál fyrir þá 4.500 kennara sem eru án launa og eru í verkfalli.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan þá ætla ég ekki að lengja þessa umræðu mjög mikið vegna þess að ég tel mikilvægt að þetta mál komist sem fyrst til allsherjarnefndar til að hægt sé að vinna það þar, vinna á agnúum sem sérstaklega eru í 2. gr. og ég held að flestallir stoppi við og geri það að verkum að menn geti ekki orðið ánægðir með þá forskrift sem hér er sett fram, þ.e. þeir grunnskólakennarar sem kannski eru að hengja hatt sinn á það að gerðardómur klári þetta á eðlilegan hátt. Þá eru hérna nokkur atriði sem ekki er hægt að fallast á. Ég óttast, virðulegi forseti, að ef gerðardómur þarf að vinna eftir þessari forskrift ríkisstjórnarinnar og út úr því komi kannski ekki miklu meira en miðlunartillagan sem var kolfelld þá geti kennarar ekki annað en gripið til fjöldauppsagna. Það vil ég ekki sjá að gerist í framhaldinu vegna þess að þá lendum við í enn meiri deilu og krísu vegna kennslu barna okkar.

Virðulegi forseti. Talað er um að grunnskólakennarar vilji bera sig saman við framhaldsskólakennara. Í fréttabréfi sem kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna birti og birtur var útdráttur úr í Mogganum í gær er sýnt hvernig þetta hefur þróast allt frá 1995 og miðað við það sem þar kemur fram er ósköp eðlilegt að kennarar beri sig saman við framhaldsskólakennara þar sem þeir lágu eiginlega hlið við hlið áður en kjarasamningur ríkisins við framhaldsskóla var gerður árið 2000 eða þar um bil. Síðan hefur þetta bil aukist.

Það er sannarlega rétt að hafa það í huga að vegna einsetningar skólanna hafa grunnskólakennarar ekki eins mörg tækifæri og áður til að hífa upp laun sín. En við getum ekki ætlast til þess að grunnskólakennsla sé hlutastarf hjá viðkomandi sem þurfi að vinna út í sjoppu á kvöldin til að ná sér í eðlileg laun til að framfleyta fjölskyldu sinni. (Gripið fram í.) Þá er þetta bara vandamál. Ég heyrði ekki hvað hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði. (PHB: Er þetta ekki fullt starf?) Jú, það er sannarlega fullt starf að vera kennari. Kennarar vilja sannarlega vera í fullu starfi eingöngu við kennslu en ekki í aukavinnu út um allan bæ til þess að hafa í sig og á.

Ég frábið mér tal hv. þm. Péturs Blöndals, virðulegi forseti, um að allt fari á annan endann ef samið verði við kennara. Hann talaði ekki þannig þegar fjallað var um launahækkanir til okkar alþingismanna, varðandi hækkanir á lífeyrissjóðsgreiðslum vegna þess. Um það var eingöngu talað vegna þess að það hentaði gagnvart kennurum.

Virðulegi forseti. Rétt í lokin, út af málum sem eru mikil deiluatriði gagnvart sveitarfélögunum sem gerir það auðvitað að verkum að sveitarfélögin geta ekki borgað: Ríkið gat samið við framhaldsskólakennara, sett það inn í fjárlög og náð í meira fjármagn, bæði út af þenslu og aukinni skattheimtu. Sveitarfélögin geta ekki samið við grunnskólakennara vegna þess að þau hafa ekki meira til skiptanna. Hjá mörgum sveitarfélögum vítt og breitt um landið hafa tekjur snarlækkað út af ýmsu sem er að gerast í atvinnumálum okkar Íslendinga.

Það er sannarlega rétt, virðulegi forseti, að mikið hefur verið sett á sveitarfélögin frá því þessir samningar voru gerðir um að grunnskólinn færi þangað yfir. Kennarar hafa m.a. sagt, sem mér finnst kannski lýsa málinu í hnotskurn: Það sem mátti ekki gera meðan ríkið annaðist grunnskólann er orðið að skyldu eftir að sveitarfélögin tóku við. Þannig komst kennari nokkur að orði. Þetta er auðvitað alveg hárrétt. Síðan geta menn rætt við sveitarstjórnarmenn og fengið upplýsingar um hvernig ýmislegt hefur verið sett á sveitarfélögin sem gerir það að verkum að kostnaðurinn magnast og magnast. Þetta gildir ekki eingöngu um grunnskólann heldur líka um leikskóla og fleira.

Ríkisstjórnin er sífellt að leggja lagafrumvörp fyrir Alþingi og þau samþykkt án þess að tekjur fylgi með til sveitarfélaganna. Ég ætla ekki að lengja umræðuna með því að fara yfir ummæli hæstv. félagsmálaráðherra áður en hann varð alþingismaður og ráðherra, varðandi einkahlutafélögin og það allt. Sleppum því að sinni.

Tilefni þess að ég kom inn í þessa umræðu nú var það að mér blöskraði hvernig hæstv. menntamálaráðherra talaði um kennarastéttina og talaði hreinlega niður til grunnskólakennara. Það er ekki nóg með að talað sé niður til grunnskólakennara. Það var talað niður til sveitarfélaga líka. Þegar hæstv. menntamálaráðherra segir að sveitarfélögin séu á kafi í braski í hlutabréfakaupum eða risarækjueldi. Virðulegi forseti. Það er ekki sæmandi menntamálaráðherra að beita slíkum rökum. Það getur vel verið að það sé hægt að finna eitt sveitarfélag sem fór í hlutabréfakaup og annað slíkt. Jafnframt er hægt að finna eitt sveitarfélag sem hefur eytt einhverjum smáupphæðum af tekjum sínum til að þróa risarækjueldi. Ég held að þar með sé það upptalið.

Sveitarfélögin gera ekki annað en það sem löggjafinn hefur sett þeim og reyna að inna þjónustu af hendi til íbúanna. Þess vegna er sárt að þetta skuli vera svona núna. Ég segi aftur að mér virðist að grunnskólakennarar séu leiksoppar þessara deilna á milli ríkis og sveitarfélaga, leiksoppar þess að ekki hafa náðst samningar við sveitarfélögin. Ég minntist á það í morgun að ég var á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga og heyrði þar formann Sambands íslenskra sveitarfélaga tala um fjármálaleg samskipti sveitarfélaganna við ríkið. Það var með ólíkindum.

Ég ætla að enda ræðu mína á því. Formaður sambandsins, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, talaði um að erfitt væri að toga ríkisvaldið að því borði að semja um þessa þætti. Hann var tilbúinn að taka á sig hluta af þeirri gagnrýni sem sveitarstjórnarmenn hafa haft í frammi. Sami formaður ræddi líka um að samskipti ríkis og sveitarfélaga væru engan veginn nógu góð í efnahagsmálum, kjaramálum og öðru slíku. Rúsínan í pylsuendanum var lýsing hans á samráðsfundum ríkis og sveitarfélaga. Hann talaði um það að þeir gögnuðust sveitarfélögunum ekki neitt. Hann fjallaði um þá meðreiðarsveina sem fylgja ráðherrunum og talaði um það að þessar umræður væru ekki mjög vitrænar. Viðræðurnar enda með hádegisverðarboði hæstv. félagsmálaráðherra og svo er fundi slitið. Þannig er lýsing formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga á samráðsfundum ríkis og sveitarfélaga.

Bæjarstjórinn á Akureyri, Kristján Þór Júlíusson, sem situr í tekjustofnanefndinni hafði orð á því að það væri dapurlegt að sitja fundi með umboðslausum einstaklingum. Þá var hann að tala um fulltrúa ríkisins í tekjustofnanefndinni. Er nokkur furða, virðulegi forseti, að allt sé í óefni þarna á milli. Það er hluti af þessari deilu vegna þess að sveitarfélögin geta ekki teygt sig lengra nema auknar tekjur fylgi. Hæstv. ríkisstjórn verður að sjá til þess að hægt sé að klára þessi mál þannig að sveitarfélögin geta samið við kennara.