131. löggjafarþing — 27. fundur,  12. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[15:30]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Við höfum talið mikilvægt að gerðardómurinn hafi sem best svigrúm. Það liggur t.d. ljóst fyrir að skólastjórar hafa þegar undirritað kjarasamning og þetta skapar möguleika á að koma þeim kjarasamningi til gerðardómsins. Ef það gæti orðið væri slíkt mál út af borðinu.

Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir að það er mjög mikilvægt að gefa aðilum í svona tilviki svigrúm til að ná samningi. Sveitarfélögin hafa lagt áherslu á það svigrúm og það hefur líka komið fram hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni að þegar gripið er til ráðstafana sem þessara sé mjög mikilvægt og nauðsynlegt að slíkt svigrúm sé veitt. Ég tel til mikils að vinna fyrir alla aðila ef slíkir samningar gætu náðst. Auðvitað er það matsatriði hvað sá tími á að vera langur. Það er nauðsynlegt að fara vel yfir það og ég vænti þess að hv. allsherjarnefnd geri það þannig að nefndarmenn í allsherjarnefnd geti farið yfir öll rök í málinu og metið svo að lokum hvort ástæða sé til að hafa þetta svigrúm, sem er til 15. desember, lengra eða styttra. Á því eru ýmsar hliðar en það er eitt af því sem nefndin þarf að athuga.