131. löggjafarþing — 28. fundur,  13. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:25]

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Ég vildi einungis standa hér upp til að þakka hv. allsherjarnefnd fyrir góð störf. Nefndin hefur unnið málið hratt og vel eins og nauðsynlegt er við slíkar aðstæður. Ég vildi jafnframt þakka stjórnarandstöðunni fyrir þann skilning að nauðsynlegt sé að afgreiða mál snöggt í tilvikum sem þessum. Þótt ég virði að sjálfsögðu skoðanir þeirra og andstöðu við málið er mikilvægt að slíkur skilningur sé hér á Alþingi.

Ég tel mjög eðlilegt að nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að breyta dagsetningunni 15. desember í 20. nóvember enda liggur fyrir að báðir aðilar óska eftir því. Ríkisstjórninni þótti eðlilegt að gefa aðilum rúman tíma til að reyna enn frekar að ná samningum. Nú liggur fyrir að menn meta það svo að það sé ekki mögulegt. Ég tel að það sé enn frekari staðfesting á nauðsyn þess að fara í málið með þessum hætti þó að okkur öllum sé það að sjálfsögðu óljúft.

Hér hefur verið talað um að það verði erfitt fyrir kennara og aðra að koma til vinnu, koma í skólann, á mánudag. Ég ætla ekkert að draga úr því. En ætli það hefði ekki orðið enn þá erfiðara að koma til vinnu og koma í skólana einhvern tíma eftir áramót eins og staðan blasir við? Ég býst ekki við að það hefði verið létt.

Auðvitað er málið erfitt en ég bendi á að það er að sjálfsögðu gerðardómsins, sveitarfélaganna, kennaranna og samtaka þeirra að vinna úr málinu á þeim grundvelli sem þetta frumvarp og væntanleg löggjöf gerir ráð fyrir. Þar eru margir möguleikar og mörg tækifæri til að vinna úr málinu sem er að sjálfsögðu nauðsynlegt því að endingu eru það aðilar málsins sem eiga síðasta orðið í þeim efnum og verða að vinna úr því. Við gerum okkur öll grein fyrir því og þess vegna hefur verið lögð á það áhersla í þessu máli að loka engum dyrum og hafa alla möguleika opna í þeim efnum þannig að hægt sé að tryggja sem farsælasta lausn að lokum.