131. löggjafarþing — 29. fundur,  13. nóv. 2004.

Kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum.

318. mál
[12:40]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er rétt í þann veginn að verða að lögum þetta frumvarp ríkisstjórnarinnar um það að setja lög á kennaraverkfallið. Þar með lýkur kannski í bili mjög erfiðri kjaradeilu sem ég hygg að hafi valdið allri þjóðinni mjög miklu hugarangri á undanförnum vikum.

Ég skal alveg viðurkenna að við í Frjálslynda flokknum höfum haft mjög miklar áhyggur af þessu máli og okkur var það fyllilega ljóst fyrir nokkrum dögum að eitthvað yrði að gera, þessari martröð yrði að linna.

Ég sagði í lokaræðu minni í gær að við hefðum ákveðið að við mundum sitja hjá við afgreiðslu þessa frumvarps. Við höfum tekið þátt í vinnunni við að afgreiða það hér á hinu háa Alþingi, við höfum greitt fyrir afbrigðum, okkar maður hefur unnið af heilindum í allsherjarnefnd og við höfum lagst á árar með stjórnarandstöðunni í þá átt að reyna að bæta þetta frumvarp, reyna að gera það þá eins gott og hægt var.

Því miður er niðurstaðan af þeirri vinnu ekki ásættanleg að okkar mati. Við teljum að ekki sé komið nógu mikið til móts við óskir kennara, sanngjarnar óskir kennara. Við gerum okkur á sama tíma líka grein fyrir því að í þessu máli eru tveir hópar sem báðir hafa þurft að þjást mikið vegna deilunnar, annars vegar kennarar og hins vegar börnin og foreldrar þeirra.

Ég verð að segja það að eftir vandlega íhugun, mjög erfiða ákvörðun, höfum við í þingflokki Frjálslynda flokksins komist að þeirri niðurstöðu að við munum segja nei við þessu frumvarpi. Við teljum að það sé hreinlega ekki nógu gott. En ég ítreka enn og aftur orð mín: Það varð að gera eitthvað og ég vona svo sannarlega að sá gálgafrestur — þetta er ekkert annað en gálgafrestur — sem við erum að kaupa okkur nú á hinu háa Alþingi verði til þess að ásættanleg lausn náist til frambúðar í kjaramálum kennara. Þá er ég ekki bara að tala um grunnskólakennara, heldur líka leikskólakennara. Hér verðum við virkilega að gangast við ábyrgð okkar, við stjórnmálamenn. Það er sú vinna sem við eigum að fara í núna og við eigum að vinna hana hratt og örugglega.