131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Afleiðingar verkfalls kennara.

[15:05]

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég tek eindregið undir það síðasta sem kom fram hjá hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, þ.e. að við eigum að einhenda okkur í það að reyna að koma skólastarfi landsins í samt horf. En það er rétt sem hefur komið fram, m.a. í máli hæstv. forsætisráðherra, að ég hef tekið upp það mál innan ríkisstjórnar hvernig eigi að koma til móts við þá lagagrein sem kveður á um að börnin okkar eigi rétt á 170 dögum í skóla.

Ég hef þegar sett mig í samband við Samband íslenskra sveitarfélaga og það er ekki þannig að ráðuneytið muni koma með einhliða aðgerðir eða boðvald heldur munum við að sjálfsögðu vinna að málinu í mikilli samvinnu við sveitarfélögin og fræðsluyfirvöld hvar sem er á landinu, og auðvitað með að meginmarkmiði að börnin fái það sem lögin okkar kveða á um, að reyna að mæta því eins og kostur er.

Verkfallið hefur verið langt og þess vegna er afar erfitt að ná þessum 170 dögum saman. Það kann líka að vera, eins og hefur tíðkast þegar samningar nást, að ef deiluaðilar ná saman síðar í vikunni verði hægt að taka þetta upp innan samninga eins og hefur oft verið. Þetta allt munum við að sjálfsögðu líta á en vinnan er hafin til þess að fara vel yfir það hvernig við ætlum að bæta börnunum okkar þetta verkfall og þann tíma sem þau hafa glatað úr skólanum. Um leið vil ég geta þess að ég hef frestað samræmdum prófum, könnunarprófunum sem eru haldin fyrir 4. og 7. bekk og áttu að vera haldin 14. og 15. október.