131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Afleiðingar verkfalls kennara.

[15:13]

Gunnar Birgisson (S):

Virðulegi forseti. Lög á kjaradeilur eru algert neyðarúrræði. Því neyðarúrræði var beitt hér sl. laugardag með þó þeim hætti að aðilar geta talað saman. Frekar góðar fréttir komu úr Karphúsinu í gærkvöldi þannig að við skulum gefa þessu séns.

Hvað kemur svo stjórnarandstaðan með, vinstri flokkarnir? Jú, oddvitar þeirra koma með það að þeir vilja láta ríkið setja meiri fjármuni til sveitarfélaganna. Það er af hinu góða, og ég er sammála því. (Gripið fram í.) En þeir vilja það eingöngu vegna þessarar deilu. Hækka laun kennara nógu mikið þannig að þeir séu ánægðir, og hvað svo með leikskólakennarana? Og hvað síðan með hv. þm. Ögmund Jónasson? Hann er hér með uppglennt augu núna. Hvað svo með það? Á að koma sérfjárveiting vegna þess? Hvað á svo að gera þegar búið verður að hækka launin upp úr öllu valdi, umfram aðra í þjóðfélaginu? Þá kemur víxlverkun verðlags og launa, og verðbólga. Launin hækka rétt til að byrja með og síðan minnkar kaupmátturinn. Það verður kjararýrnun. Er þetta eitthvert vit?

Ég hef ekki heyrt neina lausn frá stjórnarandstöðunni í þessu máli á neinum vitrænum nótum. Þetta er hið eina, að ríkið eigi að koma með meiri fjármuni til að greiða hærri laun. Ekki bara kennurunum, væntanlega öllum opinberum starfsmönnum. Hvað svo með aðra sem þegar eru búnir að semja? Þetta er óábyrgt tal. En við skulum vona að í vikunni geti þessi deila leyst, sem er orðin mjög alvarlegt mál og aðallega fyrir börnin. Hvað með foreldrana sem greiða skatt til sveitarfélaganna, eiga þeir rétt á að fá endurgreitt, eða hvað, af því að þeir fá ekki þjónustu fyrir börnin sín?