131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Afleiðingar verkfalls kennara.

[15:15]

Sigurlín Margrét Sigurðardóttir (Fl):

Virðulegi forseti. Í morgun fór ég með börnin mín tvö í skólann og þau hlökkuðu óskaplega til eftir langt hlé og stopult nám á þessari önn. Sú tilhlökkun varði þó ekki lengi því að innan hálftíma var annað barnið komið heim og með því þrír vinir þess vegna þess að foreldrar þeirra voru ekki heima. Maður fylltist auðvitað réttlátri reiði eins og sennilega meginþorri foreldra í sömu aðstæðum og ég. Þetta gengur engan veginn, það verður að eyða allri óvissu núna.

Ég leyfi mér að vísa í fréttatilkynningu frá samtökunum Heimili og skóli þar sem samtökin harma að kennarar hafi ekki mætt til vinnu. Við verðum að virða landslög, hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Það er stórlega traðkað á lögbundnum rétti barnanna í landinu. Það er á engan hátt forsvaranlegt að fjölmenn starfsstétt mæti ekki til vinnu. Við í stjórnarandstöðu gerðum allt sem í okkar valdi stóð en það dugði ekki til. Yfirgangur stjórnarliða við að koma lögunum á var slíkur og um hann ríkir engin þjóðarsátt, það sýnir sig vel núna. Nú er svo komið að þingheimur verður enn einu sinni að reyna að leysa þetta í eitt skipti fyrir öll svo að allir megi sáttir við una, þannig að lögbundnum rétti barnanna verði gert hátt undir höfði í þessu máli.