131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Afleiðingar verkfalls kennara.

[15:19]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég var algjörlega ósamþykkur þeim lögum sem Alþingi setti hér sl. laugardag. En lög eru lög og jafnvel þó að við séum á móti einhverjum lögum verðum við að fara eftir þeim.

Hið íslenska samfélag er hins vegar umburðarlynt og sáttfúst og Íslendingar hafa fullan skilning á því að það var erfitt fyrir kennara að taka þessari niðurstöðu. Ég sem foreldri sem, eins og hv. þingmaður sem talaði hérna áðan, fór með mínar tvær dætur í skóla í morgun og þurfti að fara aftur með þær heim hef fullan skilning á því að það sé erfitt fyrir kennara að sætta sig við þetta. Auðvitað munu kennarar eins og aðrir sem þurfa að sæta ólögum hlíta þeim þegar upp er staðið, auðvitað verður það þannig.

Ég veit líka að ríkisstjórnin gekk að þessu verki ekki ánægð og ég veit að hæstv. forsætisráðherra hefur auðvitað skilning á því að menn eru lítt glaðir yfir þessari niðurstöðu.

Ég vil koma að því sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson tók til máls um, sem er: Með hvaða hætti ætlar hæstv. menntamálaráðherra að bæta börnum landsins verkfallið, hvernig ætlar hún að standa við lögin sem tilgreina ákveðna lágmarkskennslu gagnvart börnunum?

Hæstv. forsætisráðherra greindi okkur frá því í síðustu viku að þetta hefði verið rætt í ríkisstjórn og hann sagði að hæstv. menntamálaráðherra mundi sjálf greina frá því með hvaða hætti ætti að gera þetta.

Heyrði ég rétt, herra forseti? Er hæstv. menntamálaráðherra svo sofandi á verði sínum að það eina sem hún hefur gert er að tala við formann Sambands íslenskra sveitarfélaga? Var það það sem hún sagði ríkisstjórninni frá? Er það þannig að hundrað manna ráðuneytið tekur ekki fastar á þessu en svo að hæstv. menntamálaráðherra er enn sofandi, er enn í þyrnirósarsvefninum og hefur ekkert gert nema hringja í flokksbróður sinn, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson? Þetta er með öllu ótæk frammistaða af hálfu hæstv. menntamálaráðherra.