131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

295. mál
[15:34]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég tel að þetta sé ákaflega gott frumvarp. Það er í öllum meginatriðum í samræmi við þá stefnu sem Þingvallanefnd hefur markað til næstu 20 ára um vernd þjóðgarðsins. Frumvarpið grípur inn í þá stefnumörkun og ég held að það sé alveg ljóst að nauðsynlegt er að setja lög af þessu tagi. Raunar hafa menn verið að gera tilraunir til þess allt frá því að umhverfisráðuneytið var stofnað.

Svæðið sem frumvarpið tekur til er þjóðþekkt. Gjörvöll þjóðin þekkir þetta fallega land, sögu þess og menningararfleifðina sem því tengist. Fáir gera sér hins vegar grein fyrir því að þetta svæði býr yfir ýmiss konar auðlegð sem augað fær ekki greint við fyrstu sýn. Þarna er eitthvert öflugasta vatnsforðabúr íslensku þjóðarinnar og svo vill heppilega til að þetta forðabúr er í næsta nágrenni við helsta þéttbýli þjóðarinnar. Þegar dregur fram um næstu öld hygg ég að Íslendingar, sá partur þjóðarinnar sem býr á suðvesturhorninu, muni í vaxandi mæli sækja í það vatn sem rennur frá Þingvallavatni í gegnum árnar og fer til sjávar. Þegar er byrjað að nýta þessa auðlind með því að heitt vatn frá Nesjavöllum er flutt til að hita upp húsin við Reykjavík.

Ég er ákaflega glaður yfir því að í frumvarpinu er sérstaklega tekið á lífríki Þingvallavatns. Hæstv. ráðherra gat þess réttilega að það væri að mörgu leyti einstakt. Þar hafa fundist dýr á allra síðustu árum sem enginn vissi áður að lifðu í Þingvallavatni, t.d. vatnsmarflær sem höfðu þrifist í Þingvallavatni allt frá því ísöld slotaði. Sama gildir um hin stærri dýr sem þekkt eru eins og urriðann. Urriðinn er einstakur eins og hæstv. ráðherra gat um. Hann varð landluktur fyrir 9 þúsund árum skömmu eftir að ísöldin tók að réna og jöklar að bráðna og land þar með að rísa þegar fargi var lyft af landinu. Það leiddi til þess að ókleifir fossar urðu til í Soginu sem aftur kom í veg fyrir að sjóbirtingur sem hingað kom frá suðvesturhluta Írlands átti ekki lengur greiða leið til sjávar, lokaðist inni og varð að þessu miklu vatnadýri sem er sem betur fer aftur að ná sér upp í Þingvallavatni.

Það skiptir ákaflega miklu máli að þær reglur sem talað er um í 3. og 4. gr. verði settar, að sjálfsögðu í samráði við hlutaðeigandi aðila. Það skiptir mjög miklu máli að settar séu reglur um vatnsborðssveiflur sem draga úr röskun búsvæða. Nú hafa orðið miklar náttúruhamfarir af manna völdum í þessu vatni bæði þegar Efra-Soginu var lokað, sem tók fyrir þennan stóra og sterka urriðastofn sem lifði í mynni árinnar og niður eftir allri ánni, en líka á þjóðhátíðardaginn 1959 þegar gríðarlegt ofviðri gerði. Þá var verið að byggja Steingrímsstöð og bráðabirgðastíflan sem þá var búið að setja upp brotnaði og vatnið ruddi sér leið niður um hinn gamla farveg og straumurinn var svo mikill að hann tók með sér alla hrygningarmölina fyrir framan mynni árinnar. Það getur því orðið erfiðara en menn telja að koma þessum stofni upp aftur þó að það takist að opna aftur ána þarna niður úr.

Nú vil ég líka, herra forseti, nota tækifærið til að segja að ég er þeirrar skoðunar að við sem eigum þetta land eigum að skila til baka hluta af því sem við höfum tekið frá náttúrunni. Í dag mundi ekki nokkrum manni detta í hug að byggja virkjanirnar sem eru niður úr öllu Soginu. Það hefur tekist bærilega að halda uppi lífríki Sogsins sjálfs við virkjanirnar niður frá, neðan Þingvallavatns og Úlfljótsvatns, en ekkert getur bætt stofninn sem var í Efra-Soginu. Ég vil því helst leggja af Steingrímsvirkjun og ég vil upplýsa hæstv. ráðherra um að í stefnumótun Þingvallanefndar til næstu 20 ára er beinlínis talað um að ná samkomulagi við Landsvirkjun um að opna urriðanum farveg aftur niður Efra-Sog. Það er hægt að gera með ýmsu móti. Í dag fer gríðarlega mikið vatn sem yfirfall yfir virkjunina og nægir fullkomlega til að halda þar uppi öflugum stofni. En það þyrfti að láta það vatn renna öðruvísi niður Efra-Sogið en sem yfirfall. Það þyrfti þá að gera einhvers konar gat í stífluna og láta vatnið fara þar. Það mundi duga til þess að þessi stofn tæki aftur upp búsetuna en auðvitað í miklu minni mæli en áður.

Það sem hefur hins vegar skipt langmestu máli varðandi bæði uppgang bleikju og urriða á síðustu árum er þrotlítil barátta áhugamanna, ekki síst þess manns sem skrifaði greinargerðina, Péturs M. Jónassonar, fyrir því að Landsvirkjun drægi úr notkun á Þingvallavatni sem miðlunarlóni. Hefur það leitt til að vatnsborðssveiflur eru miklu minni en þær voru áður. Þegar urriðinn var hér í gamla daga eftir virkjun Efra-Sogsins að hrygna þá gerði hann það í uppsprettum sem hann komst í sem oft voru í fjöruborði. Urriðinn hrygndi og gróf hrognin þar. Svo þegar leið á árið lækkaði Landsvirkjun vatnsborðið af því að hún þurfti að hleypa úr vatninu og nýta það til rafmagnsframleiðslu. En um leið voru urriðahrognin á þurru og þar með var sú hrygning farin forgörðum. Þetta spillti þeim urriða sem eftir var á ýmsum stöðum. Sömuleiðis hækkaði Landsvirkjun yfirborð Þingvallavatns um einn metra og það skiptir máli varðandi neðsta hluta Öxarárinnar sem var hrygningarvatn. Þetta leiddi til þess að vatnið hækkaði og straumurinn á hinum upprunalegu hrygningarstöðum í Öxaránni var minni en áður og það varð annars konar setmyndun þar. Þar sem áður var gróf möl var nú fínni möl og jafnvel sandkenndur botn sem leiddi aftur til þess að urriðinn átti sér ekki hrygningarathvarf þar.

Nú hefur þetta sem betur fer snúist við. Nú er vatnsborðið miklu stöðugra og urriðinn hefur fyrir vikið náð að festa sig betur í sessi. Þessi urriði er algerlega sérstakur eins og hefur margoft komið fram í máli mínu í tengslum við þetta. Þetta er ísaldarurriði með gen sem eru ekki til nema á örfáum stöðum í heiminum lengur vegna þess að síðar eftir að hann var landluktur í Þingvallavatni urðu til aðrir smærri sjóbirtingar sem náðu yfirhöndinni og þessir gríðarstóru fiskar hurfu. Þeir eru hvergi til nema í Þingvallavatni.

Af því að í þessum sal sitja áhugamenn um fiska og veiðiskap vil ég geta þess til að undirstrika hversu mikill vexti þessi urriði var að eina mælingin á meðalstærð fullorðins fisks, þ.e. hrygningarurriða, sem einu sinni var tekinn úr Öxará sýndi að fullorðinn urriði í Þingvallavatni er að meðaltali stærri en stærsti laxastofn landsins, þ.e. stofninn sem hélt til á bestu svæðum Laxár í Aðaldal fyrir norðan.

Sama gildir um bleikjuna sem hæstv. ráðherra gat um. Minni vatnsborðssveiflur hafa leitt til þess að kuðungarnir sem lifa við vatnsborðið fara ekki forgörðum eins og áður þegar þeir sátu á þurru þegar vatnið var skyndilega lækkað um 5 sm eða 10 sm. Það leiddi til að kuðungableikjan sem er sérstakur fiskur og var illa kominn líka eins og urriðinn náði ekki að halda sér við með þokkalegum hætti. Nú er þetta breytt og það er hægt að segja það fullum fetum að Þingvallavatn er sennilega besta veiðivatn á Íslandi. Ég satt að segja veit ekki um neitt veiðivatn í öllum heiminum þar sem afrakstur á hvern hektara er jafnmikill og í Þingvallavatni. Þó er talað um að þetta sé kalt og lífvana vatn. En auðvitað sannast á þessu vatni hið fornkveðna íslenska orðtak: Frjó eru vötn sem renna undan hraunum. Það á svo sannarlega við um þetta vatn.

Við þurfum að gera allt sem hægt er til þess að vernda það og mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra nokkurra spurninga. Í 4. gr. segir að setja eigi nánari reglur um framkvæmd verndunarinnar. Ég ímynda mér að hæstv. ráðherra komi væntanlega ekki að tómum kofa þegar hún sest í stól umhverfisráðherra. Þetta eru mál sem menn hafa velt fyrir sér árum saman. Er búið að gera drög að einhvers konar reglum um framkvæmd þessarar verndunar? Ég er sérstaklega að spyrja um bílaumferð í gegnum þjóðgarðinn og þá kannski fyrst og fremst um hvort það komi til greina á því svæði sem verndunin þarf að ná til og þar sem viðkvæmast má telja, vatnsból, að banna umferð olíubíla. Ég spyr vegna þess að ég held að það sé ekkert leyndarmál að hæstv. samgönguráðherra hefur reifað það, hugsanlega einhvern tíma í ræðu á hinu háa Alþingi, að grípa til einhverra slíkra ráða. Við höfum rætt þetta í Þingvallanefnd. Staðreyndin er sú að ef þarna færi olíubíll niður þá mundi það geta leitt til gríðarlegrar spillingar á vatninu sem þarna er að finna, ég tala nú ekki um ef slíkt slys yrði norðan Þingvallavatns. Ekki má gleyma því að jarðvegurinn þarna er ákaflega sérstakur og vatnið er mjög lengi að fara í gegnum hraunið. Þar sem vatn sprettur upp í Vellankötlu er hægt að mæla aldur þess og margt bendir til þess að þar sé að koma upp ákoma sem hefur fallið á Langjökul í þann mund sem fyrstu landnámsmenn voru að festa byggð á Íslandi. Þetta tekur sem sagt svona gríðarlega langan tíma fyrir a.m.k. hluta af úrkomunni sem fellur á jökulinn að síga í gegnum þetta smágropna hraun sem er fyrir norðan vatnið.

Ef þarna fer niður einhvers konar spilliefni eins og olía getur það leitt til þess að við lendum í gríðarlegum vandræðum með þetta mikla vatnsforðabúr. Þó ekki sé hægt að slá á verðmæti þess í krónum er ljóst að það mun skipta sköpum fyrir neyslu og til alls konar iðnaðarframleiðslu á næstu öld. Það er mín skoðun.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hafði nokkur orð um það með hvaða hætti stjórnsýsla þjóðgarða ætti að vera. Auðvitað geta menn haft skoðanir á því. Það er ekkert að því að menn telji, eins og hv. þingmaður, að það væri heppilegra að þjóðgarðurinn á Þingvöllum væri undir umhverfisráðuneytinu. Ég var ekki þeirrar skoðunar þegar ég var umhverfisráðherra og taldi að svo ætti ekki að vera. Rökin fyrir því eru heldur ekki auðsæ en það er óhætt að fullyrða að sú staðreynd að Alþingi hefur sérstakan þokka á þessum stað og að staðurinn heyrir beint undir Alþingi, hefur leitt til þess að verndun og uppbygging svæðisins hefur verið miklu betri en gerist um aðra þjóðgarða. Ég vildi óska að Alþingi og framkvæmdarvaldið hefði meiri skilning á því að þjóðgarðarnir þurfa meira fé en það má auðvitað segja um flesta þætti ríkisrekstrar. Staðreyndin er hins vegar sú að einmitt vegna tengsla þings og Þingvalla hefur tekist betur en ella að tryggja rekstur þjóðgarðsins og þær framkvæmdir sem óhjákvæmilega hefur þurft að ráðast í þar. Þetta segi ég vegna þess að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talaði eins og Þingvellir gyldu þess að vera ekki undir hinni mildu leiðsögn hæstv. umhverfisráðherra Sigríðar Önnu Þórðardóttur.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hrósaði greinargerðinni sem hæstv. ráðherra drap hér aðeins á og er gerð af Pétri M. Jónassyni. Nú vil ég taka það fram, herra forseti, að Pétur M. Jónasson hefur reynst mikil hjálparhella í öllu því sem lýtur að greiningu þessa svæðis. Ég verð samt sem áður að segja að mér finnst hæstv. umhverfisráðherra hafa býsna mikinn kjark að leggja í að koma með greinargerð þar sem er birt staðhæfing sem prófessor Pétur M. Jónasson hefur sett fram varðandi meinta mengun af völdum bílaumferðar um þetta svæði og sér í lagi þjóðgarðinn. Mér þætti vænt um ef hæstv. umhverfisráðherra hlýddi á mál mitt því ég þarf að spyrja hana út í þetta en það segir beinlínis, með leyfi forseta:

„Aukist bílaumferð umtalsvert á svæðinu mun niturmengun aukast í Þingvallavatni og valda verulegum spjöllum á lífríki Þingvallavatns og einu helsta vatnsforðabúri þjóðarinnar. Það gæti leitt til þess að svæðið yrði tekið af heimsminjaskrá UNESCO.“

Hér er ansi afdráttarlaust að orði kveðið. Þarna er um að ræða fullyrðingu sem við í Þingvallanefnd höfum töluvert brotið heila og höfuð yfir. Ég verð að segja, herra forseti, og vísa til fyrri tilvistar minnar sem náttúruvísindamanns, að ég er þessu ekki alls kostar sammála. Ég hef ekki svo óyggjandi sé fundið vísindamenn sem hafa staðfest að þetta sé rétt. Deilur hafa staðið um vegalagningu og í þeirri deilu hefur þessi staðhæfing verið notuð sem röksemd. Einmitt vegna hennar og vegna þess að málið er mér skylt þar sem ég er einn af trúnaðarmönnum þingsins í Þingvallanefnd, hef ég lagt mig eftir því að hitta vísindamenn sem hugsanlega gætu varpað ljósi á þessar fullyrðingar sem hafa verið settar fram í blaðagreinum. Ég hef ekki enn þá fundið þá vísindamenn. Mér finnst í góðu lagi að í deilum, sem stundum eru skyldar pólítískum deilum, sem standa t.d. um vegalagningar á þessu viðkvæma svæði kasti menn fram fullyrðingum. En þegar hæstv. umhverfisráðherra er farinn að taka upp þær fullyrðingar án þess að greina frá því sannferðuglega að þetta sé umdeilt og setja það inn í greinargerð með frumvarpi ríkisstjórnarinnar, þá verð ég að segja að mér finnst ekki bara skörin vera farin að færast upp í bekkinn, heldur finnst mér að hér sé með háskalegum hætti farið.

Ég verð að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort hún og sérfræðingar hennar hafi ekki grandskoðað greinargerðina og þá jafnframt hvort hún hafi einhvers konar sannanir eða vísindalegar umsagnir sem skjóta stoðum undir þessa fullyrðingu. Ég verð að segja, herra forseti, af því að ég og hæstv. ráðherrar sem sitja í Þingvallanefnd, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, höfum nú síðustu tvö árin lagt gríðarmikla vinnu í að tryggja að Þingvellir væru teknir á heimsminjaskrá UNESCO, að mér hefði brugðið hefði ég séð þetta koma á þeim tíma þegar ekki var ljóst hver yrðu afdrif þeirrar umsóknar. Ég er ansi hræddur um að heyrst hefði hljóð úr horni hjá formanni Þingvallanefndar ef hann hefði vitað af þessu. Ég leyfi mér að fullyrða að hann hefði gert sterkar athugasemdir ef hann hefði gert sér grein fyrir því að ríkisstjórnin væri að leggja fram frumvarp sem hefði að geyma og byggðist á greinargerð sem fæli í sér þessa staðhæfingu.

Ég ætla ekki að fara út í frekari umræður um þetta, herra forseti, en ég tel alveg nauðsynlegt, eftir að þetta er komið fram með þessum hætti, að þá verði það sannreynt með einhverjum hætti í meðförum þingsins með því að fá vísindamenn sem geta sagt af eða á um hvað er að finna af röksemdum fyrir þessu. Ég er satt að segja verulega hissa á að sjá þetta, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Þegar hæstv. umhverfisráðherra leggur fram greinargerð, jafnvel þó að hún hafi ekki skrifað hana sjálf heldur fengið til þess sérfræðing þá hlýtur hún að bera ábyrgð á henni. Þar segir beinlínis að það sé hugsanlegt að aðgerðir sem eru í gangi geti leitt til þess að Þingvellir verði teknir af heimsminjaskrá.

Ég verð og hlýt sem gamall náttúruvísindamaður og sem fulltrúi þingsins í Þingvallanefnd að mótmæla því mjög harðlega að þessi staðhæfing standist. Ég held að þetta sé ekki rétt. Ég geri engar athugasemdir við það að einstakir vísindamenn hafi þessar skoðanir en ég legg á það þunga áherslu að þeim hefur ekki tekist í blaðagreinum að færa rök fyrir því sem standast. Ég tel hins vegar að eftir að þetta kemur fram í þinginu verði þingið, hugsanlega í samvinnu við hæstv. ráðherra, að ganga úr skugga um það. Mér finnst ekki hægt að við ljúkum málinu í vetur án þess að annaðhvort séu þessar fullyrðingar hraktar eða við tökum afleiðingunum sem af þeim hljóta að rakna. Þær hljóta að felast í því að við endurskoðum algerlega vegalagningar og notkun vega í þjóðgarðinum. Ef þetta er rétt er ekki um neitt annað að ræða en að loka veginum sem gengur norðan Þingvallavatns og í gegnum þjóðgarðinn. Ég er til í að skoða það ef það er nauðsynlegt. Ef þessi fullyrðing er rétt mun það reynast nauðsynlegt.