131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

295. mál
[16:10]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þau svör sem hún veitti áðan við þeim spurningum sem ég varpaði fram. Spurningarnar vörðuðu hvers konar reglur væri líklegt að settar yrðu og hæstv. ráðherra var svo vinsamleg að benda mér á að í greinargerð með 3. gr. þar sem reifað er hverju ráðuneytið muni líklega velta fyrir sér þegar reglur verða settar er einmitt talað um flutning og meðferð mengandi efna á verndarsvæðinu. Það mun koma í ljós með hvaða hætti hæstv. ráðherra setur þær reglur en ég er þeirrar skoðunar og vil að það komi hér skýrt fram að það sé mjög mikilvægt að við þá reglusetningu verði allt gert sem dregur úr umferð flutningabifreiða með olíu og mengandi efni um þetta svæði. Ég tel þess vegna að það eigi að banna slíka umferð um hluta af svæðinu.

Ég ætla ekki að ræða frekar þessar reglur en mig langar aðeins áður en þessari umræðu slotar, herra forseti, að koma aftur inn á það atriði sem ég drap á, greinargerð Péturs M. Jónassonar prófessors. Nú vil ég taka alveg skýrt fram að hún er að öllu leyti góður vitnisburður um afburðaþekkingu hans á þessu svæði og Pétur M. Jónasson hefur manna mest barist fyrir stækkun þjóðgarðsins og vatnsvernd á þessu svæði þannig að hann á mikið hrós skilið fyrir það. Ég dreg hins vegar í efa að hægt sé að skjóta óhrekjanlegum stoðum undir þær fullyrðingar sem er að finna á bls. 17 í greinargerðinni þar sem talað er um niturmengun sem muni aukast af völdum bílaumferðar, hugsanlega í þeim mæli að það gæti leitt til þess að svæðið yrði tekið af heimsminjaskrá UNESCO. Ég tek það ekki gilt þegar hæstv. ráðherra segir: Þetta er á ábyrgð höfundarins. Ráðuneyti sem leggur fram greinargerð er að leggja blessun sína yfir það efni sem í greinargerðinni er að finna.

Nú er ég ekki að halda því fram að hæstv. ráðherra sé að öllu leyti sammála þessari fullyrðingu en ég tel eigi að síður að henni sé gefið mjög þungt vægi þegar hún kemur fram í fylgiskjali sem ráðuneytið leggur fram til að styðja setningu tiltekinna laga. Mér þykir þetta óvarlegt, sérstaklega vegna þess að þegar heimildirnar eru skoðaðar sést að höfundurinn, Pétur M. Jónasson prófessor, er nægilega sanngjarn til þess að heimildin sem hann byggir þetta á, er sett undir það sem heitir í heimildaskránni túlkunarefni. Miðað við það er í hæsta máta um umdeilanlega staðhæfingu að ræða.

Ég tek mark á því sem lagt er fram af hálfu ráðuneyta og á hinu háa Alþingi. Ég kem hingað til að ítreka þá skoðun að ekki sé hægt að ljúka þessari lagasetningu án þess að gengið sé úr skugga um hvort staðhæfingin standist eða ekki. Ég held því ekki fram að það sé ómögulegt að hún standist. Ég er hins vegar að segja að mér hefur ekki tekist að finna röksemdir sem sannfæra mig.

Ef umfjöllun þingsins og umhverfisnefndar um þetta mál leiðir í ljós að þetta standist ekki hlýtur það að koma fram í nefndaráliti. Það skiptir máli því um þetta hafa staðið deilur. Ef niðurstaðan er hins vegar sú að þetta sé rétt þá verður framkvæmdarvaldið að grípa til aðgerða. Þá verður framkvæmdarvaldið að grípa til aðgerða sem miða að því að koma í veg fyrir að niturmengun aukist í Þingvallavatni í þeim mæli að vatnsforðinn spillist í framtíðinni og svæðið verði tekið af heimsminjaskrá UNESCO. Það þarf ekki að vera mjög erfitt og þurfa ekki að vera kostnaðarsamar aðgerðir þótt þær gætu komið við kaunin á mörgum. Auðveldasta leiðin væri sennilega, eins og ég drap á í fyrri ræðu minni, að loka fyrir umferð í gegnum þjóðgarðinn og svæðið fyrir norðan vatnið. Það er auðvitað alveg hægt.

Mér finnst líka nauðsynlegt, fyrst þessi umræða er á annað borð komin upp, að benda á að nú þegar liggur fínn vegur frá Reykjavík, um Nesjavelli og að Þingvallavatni. Þar er auðvelt að komast að vatninu, fara suður með því og yfir Sogið hjá virkjunum neðar. Það styttir líka vegalengdina milli höfuðborgarsvæðisins og uppsveita Árnessýslu. Mér finnst koma sterklega til greina að þessi vegur verði byggður upp og verði aðalvegurinn í gegnum þetta svæði. Þá höfum við að verulegu leyti komið í veg fyrir möguleikana á niturmenguninni. Þetta skiptir máli.

Í framtíðinni er ég viss um að þessi vegur verður byggður upp. Ég er viss um að hv. þm. Helgi Hjörvar mun leggja sitt fram í því enda stjórnarmaður, a.m.k. fyrrverandi, í Orkuveitu Reykjavíkur sem stendur fyrir umfangsmikilli uppbyggingu á þessu svæði. Ég tel að menn hljóti að ráðast í að byggja þennan veg upp þannig að þar verði um öflugan þjóðveg að ræða og væntanlega nýjar brýr yfir þar sem rafmagnsframleiðslan er hjá Ljósafossi. Þetta eru aðgerðir sem menn þyrftu að grípa til.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar. Ég hef aðallega komið upp til að lýsa áleitnum grun mínum um að um sé að ræða fullyrðingu sem standist ekki. Í öllu falli, fyrst hún er í þessu plaggi frá ráðuneytinu, þá finnst mér að þingið þurfi að ganga úr skugga um þetta. Það eru til ráð, ef þingið kemst að þeirri niðurstöðu að hún sé rétt, til að bægja frá þeirri vá sem spáð er að þar muni dynja yfir.