131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.

295. mál
[16:17]

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ítreka að mér finnst hv. þm. Össur Skarphéðinsson sé í raun með ákveðnum hætti að oftúlka það sem hér er sett fram. Þarna segir að allir fyrirvarar séu hafðir á í greinargerð dr. Péturs M. Jónassonar. Hann segir: „Það gæti leitt til þess að svæðið yrði tekið af heimsminjaskrá UNESCO.“ Dr. Pétur M. Jónasson hefur fyrirvara á þessum fullyrðingum. Það er alveg ljóst að skiptar skoðanir eru um það efni sem hv. þingmaður gerði að sérstöku umtalsefni. Mér finnst að hann fari að nokkru leyti offari í túlkunum sínum.

Hvað snertir umferð í gegnum þjóðgarðinn þá held ég jafnvel að hv. þingmaður hafi hitt naglann á höfuðið, varðandi umferðina sunnan við vatnið og uppbyggingu vegarins þar. Mér finnst alls ekki ólíklegt að til þess gæti komið í framtíðinni. Við deilum þeirri skoðun og mér finnst það skynsamlegur kostur.