131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[16:44]

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Hjálmari Árnasyni kærlega fyrir þann góða skilning sem hann sýnir tillögu sem nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í broddi fylkingar hafa flutt hér.

Í ræðu sinni drap hv. þm. Hjálmar Árnason á fjármál og fjárreiður stjórnmálaflokka. Hann sagði að ekki ætti að gera það tortryggilegt þó að stjórnmálaflokkar fengju framlög frá fyrirtækjum og einstaklingum. Það hefur hins vegar verið gert tortryggilegt og það er ákaflega auðvelt að gera það tortryggilegt.

Mig langar þess vegna að spyrja hv. þm. hvort hann geti tekið undir þá skoðun sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur tekið undir að fjárreiður stjórnmálaflokkanna og uppgjör eigi að fara til skoðunar og athugunar hjá Ríkisendurskoðun sem skilar þá skilagrein sinni til stjórnmálaflokkanna, eftir atvikum til forseta þingsins, með þeim athugasemdum sem þar kunna að vera. Ég tel að Ríkisendurskoðun gæti með þessu móti orðið eins konar varðgæslumaður lýðræðisins í þessum efnum. Það er ekki óeðlilegt að leita til hennar með þetta vegna þess að stjórnmálaflokkarnir fá jú obbann af því fjármagni sem þeir nota til þess að reka sig fyrir frá ríkinu. Þess vegna er þetta nokkuð rökrétt og skynsamleg hugmynd.

Hæstv. viðskiptaráðherra hefur nýlega tekið undir að svona gæti þetta verið og henni félli við þessa hugmynd. Mig langar að spyrja hvort hv. formaður þingflokks Framsóknarflokksins, Hjálmar Árnason, sé á svipaðri skoðun.