131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[16:54]

Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hér hefur farið fram uppbyggileg umræða en ég tel að hv. þm. hafi komið með örlítinn stílbrjót í hana. Við erum að ræða fræðilega um þessa úttekt, það er tilgangurinn með þingsályktunartillögunni, þess vegna kýs ég að svara ekki þeim fáránlegu ásökunum sem þingmaðurinn kom með og enginn fótur er fyrir. Það hefur komið fram í umræðunni, bæði hjá hv. framsögumanni og einnig reyndi ég að draga það fram, að þetta er sú regla sem hefur verið við lýði hjá öllum pólitískum flokkum en nýburinn, Frjálslyndi flokkurinn, hefur kosið að birta bókhald sitt og það er vel. Þessa dagana eru hinir pólitísku flokkar og eldri flokkar einmitt að fjalla um þetta og ég tel að sú þingsályktun sem hér er flutt sé innlegg í þá umræðu. Við eigum að ræða hvernig við viljum sjá málin skipast í framtíðinni en ekki vera að velta upp einhverri vitleysu eins og hv. þm. gerði sig sekan um.