131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[16:56]

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason talar um fáránlegan málflutning og segir að þetta eigi ekki við rök að styðjast. En þetta er nú ekki fáránlegra en svo að prófessor við Háskóla Íslands hefur nýlega haldið þessu fram. Þetta er til umræðu í þjóðfélaginu núna og er eitt af því sem framsóknarmenn verða að horfast í augu við. Ég hélt að hv. þm. hefði séð að sér, að þetta væri eitthvað sem þyrfti að breyta. Fjárframlög flokkanna þurfa að vera uppi á borðinu og þetta gerir alla umræðuna ómerkilega.

Ég skil vel að hann vilji ekki svara þessu efnislega heldur snúa út úr og tala um fáránlegan málflutning. En þetta er málflutningur sem prófessor í Háskóla Íslands heldur fram og menn verða að horfast í augu við það. Að stjórnmálaflokkar leyni hverjir leggi fram fé í kosningasjóði þeirra er ástand sem líðst hvergi annars staðar í Evrópu.

Auðvitað á þetta ekki að líðast og þetta er ekki einhver heimspekileg umræða, við erum að tala um Ísland í dag. Að leyna því hverjir greiði í kosningasjóði Framsóknarflokksins er í rauninni eitthvað sem menn eiga ekki að sætta sig við og um það eigum við að sameinast.

Ég taldi að ábending mín félli í góðan jarðveg hjá hv. þm. en svo er ekki að heyra. En ég vona að hann komi hér í annað andsvar og taki ábendingunni betur, ræði þetta með málefnalegri hætti og horfist í augu við að þannig er umræðan í þjóðfélaginu og meira að segja í Háskóla Íslands.