131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[17:00]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er búið að vera athyglisvert að hlýða á þær umræður sem skapast hafa hér um tillögu til þingsályktunar um rannsókn og þróun valds og lýðræðis. Mikið er undir. Þetta er, eins og fram kom í máli þeirra sem hér hafa talað, merkileg tillaga til þingsályktunar. Það er mjög mikilvægt að rekja áhrif þeirrar miklu og öru þróunar sem hefur átt sér stað á síðustu 10–15 árum í valdahlutföllum í samfélaginu og í lýðræðislegri uppbyggingu þess. Margt hefur gjörbreyst. EES-samningurinn á sínum tíma breytti miklu. Það má færa rök fyrir því að um leið og hann hafði mjög mikinn efnahagslegan ábata fyrir samfélagið og margvíslegan annan eins og með löggjöf um samkeppnismál og fleira hafi hann einnig og um leið veikt löggjafarvaldið verulega. Margt annað hefur að mínu mati orðið til þess, virðulegi forseti, að veikja löggjafarvaldið á Íslandi á síðustu árum. Við höfum öll skynjað þá þungu umræðu sem er í samfélaginu um að löggjafarvaldið sé undirselt sterku framkvæmdarvaldi, að foringjaræði stjórnarflokkanna sé algjört og svo mætti lengi telja.

Ekkert af þessu er úr lausu lofti gripið og margt af þessu er rétt. Sterkir foringjar í stjórnmálaflokkunum sem hafa beitt valdi sínu nokkuð miskunnarlaust til að brjóta flokka sína undir sig og sinn pólitíska vilja hafa orðið til þess að Alþingi Íslendinga virkar oft og tíðum eins og stimpilstofnun fyrir löggjöf sem kemur beint frá framkvæmdarvaldinu. Frumkvæði löggjafarvaldsins í smíði löggjafar og tilurð er allt of lítið.

Margt mætti annað nefna, t.d. einkavæðinguna sem hefur einnig fært mikil völd frá stjórnmálamönnum til markaðarins og er í sjálfu sér mjög jákvæð þróun að mörgu leyti. Hins vegar er einnig auðvelt að færa rök fyrir því að sú valdatilfærsla, frá kjörnum fulltrúum samfélagsins yfir til viðskiptalífsins, hafi ekki leitt af sér þá valddreifingu sem við viljum sjá og við krefjumst, við flutningsmenn þessarar tillögu sem og flestir sem taka þátt í stjórnmálum á Íslandi. Markmiðið er að dreifa valdi milli löggjafarvalds, sveitarstjórnarstigsins, hins frjálsa markaðar o.s.frv. Þróunin á markaði hefur að mörgu leyti verið nokkuð háskaleg. Eignasamþjöppunin hefur orðið mikil og því er það dreifræði ekki til staðar sem við teljum að eigi að vera til staðar.

Þetta er þróunin sem menn fundu út í Danmörku að hefði átt sér stað síðustu árin. Í þessari mjög svo vönduðu og ítarlegu greinargerð með tillögunni eru raktar helstu niðurstöður úr sambærilegum niðurstöðum á þróun valds og lýðræðis sem gerðar hafa verið í grannlöndum okkar, Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Eru þær niðurstöður merkilegar og varpa ljósi á hve ör þróunin hefur verið þótt hún hafi að mörgu leyti verið með öðrum hætti þar. Eins og allir vita er Danmörk aðili að Evrópusambandinu og býr þar af leiðandi ekki við þann gríðarlega lýðræðishalla sem má færa rök fyrir að við búum við út af EES-samningnum og er ein af ástæðum þess að Íslendingar ættu nú að huga að því að sækjast eftir fullri aðild að því ágæta sambandi. Margt annað kemur fram í þessari greinargerð um ástand mála annars staðar á Norðurlöndunum.

Þróunin er eins og ég segi um margt háskaleg. Völd löggjafarvaldsins, Alþingis, hafa að mínu mati minnkað. Við þurfum að ná utan um þessa þróun. Við þurfum að vita það. Við þurfum að hafa á borðinu fyrir framan okkur raunhæft mat á þróun valds og lýðræðis þannig að umræðan sem við erum að taka bæði hér á hinu háa Alþingi og í samfélaginu sé byggð á sterkum rökum, ítarlegum rannsóknum og greinargóðu mati á stöðunni í samfélaginu. Það er auðvelt að halda því fram, bæði úr þessum ræðustól og annars staðar þar sem pólitísk umræða á sér stað, að þróunin hafi verið býsna háskaleg á mörgum sviðum og að vald löggjafans sé allt of lítið, allt of veikt og hafi veikst þannig að fulltrúalýðræðið þjóni ekki með fullnægjandi hætti hlutverki sínu, spegli ekki valdahlutföllin í samfélaginu, völd stjórnmálamanna eða Alþingis séu að mörgu leyti orðin of lítil á kostnað hins gífurlega yfirgangssama framkvæmdarvalds annars vegar og hins vegar út af þróun á markaði.

Mig langaði að skjóta því einnig að vegna orða hv. þm. Hjálmars Árnasonar áðan um stöðu fjölmiðlanna að þeir eru ríkur þáttur í þessari þingsályktunartillögu, eins og sagt er hér, með leyfi forseta:

„Jafnframt er lagt til að metið sé vald fjölmiðla og áhrif þeirra á samfélagsþróunina, en í sambærilegri rannsókn sem unnin hefur verið í þremur öðrum norrænum ríkjum var þessi þáttur einnig hluti viðfangsefnisins.“

Það er mjög skýrt tekið fram að slík úttekt á þróun valds og lýðræðis verði að innihalda úttekt á þróuninni á sviði fjölmiðlunar.

Það er athyglisverð setning einhvers staðar í tillögunni um það hvernig þáttur stjórnmálaflokkanna hefur breyst og veikst í raun og veru í samfélaginu og að fjölmiðlarnir hafi nú það hlutverk með höndum að vera hinn beini milliliður á stjórnmálamannanna og fólksins í landinu, þess sem hlustar á fjölmiðlana. Fólkið tekur sem sagt í minna mæli þátt í stjórnmálabaráttunni þó að sú þróun hafi alls ekki verið eins dramatísk á Íslandi og t.d. í Danmörku, þar sem þátttaka í stjórnmálaflokkunum hefur bókstaflega hrunið úr því að vera yfir 200 þúsund meðlimir niður í að vera örfáir tugir þúsunda. Ég held að sú þróun hafi ekki átt sér stað hér en alvöruþátttaka í starfi flokkanna er ekki nándar nærri eins og var í gamla daga.

Að lokum, af því að tími minn er að renna út, þá þarf að mínu mati að grípa til aðgerða sem væri best að gera á forsendum slíkrar úttektar á þróun valds og lýðræðis til að skerpa skilin á milli löggjafa, dómsvalds og framkvæmdarvalds verulega. Það þarf að skerpa skilin og taka þá umræðu alveg upp á nýtt. Til þess eru nokkrar róttækar leiðir, t.d. að ráðherrar gegni ekki þingmennsku — sem ég er ekki alveg sannfærður um en má vel skoða. Svo má kjósa framkvæmdarvaldið beinni kosningu, kjósa forsætisráðherra beinni kosningu, forsætisráðherra sem síðan velur sér ríkisstjórn eftir vissum reglum og leiðum sem aftur á móti Alþingi gæti haft eitthvað um að segja, þ.e. hverjir tækju þar sæti. Ég held að við eigum að skoða þá leið mjög vandlega núna í allri umræðu um stjórnarskrárbreytingar og þróun valds og lýðræðis að kjósa framkvæmdarvaldið beinni kosningu.

Vilmundur Gylfason og Gylfi Þ. Gíslason, fyrrum þingmenn og ráðherrar, skildu eftir sig ítarleg plögg um þetta sem við, sumir þingmenn Samfylkingarinnar, notum nú til grundvallar tillögugerð um beina kosningu framkvæmdarvaldsins.