131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[17:24]

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér mjög merka tillögu til þingsályktunar um rannsókn á þróun valds og lýðræðis. Í henni er sérstaklega nefnd kenningin um þrískiptingu valdsins sem á sínum tíma var sett fram til að verja borgarana fyrir ofurvaldi ríkisins. Hugsunin var sú að það væru þrjár óháðar stofnanir ríkisvaldsins, löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið og dómsvaldið, sem kæmu fram fyrir hönd ríkisins gagnvart borgurunum. Eftir frönsku stjórnarbyltinguna var talið nauðsynlegt að setja þetta á laggirnar til að vernda borgarana fyrir ríkisvaldinu.

Það er ýmislegt hér á landi sem brýtur þessa reglu, t.d. að ráðherrar skuli vera þingmenn. Það hefur verið rætt og liggur fyrir Alþingi hugmynd til umræðu einmitt um það atriði frá hv. þm. Siv Friðleifsdóttur.

Einnig brýtur það regluna að forseti lýðveldisins, samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar, er ásamt með Alþingi hluti af löggjafarvaldinu og ásamt með ráðherrum hluti af framkvæmdarvaldinu, þ.e. hann er báðum megin. Það er líka nokkuð sem við ræðum á eftir þar sem lagt er til í lagafrumvarpi að forsetaembættið verði lagt af. Allt eru þetta því ákveðnar spurningar sem menn verða að velta fyrir sér.

Bent hefur verið á og er bent á það í greinargerð með þingsályktunartillögunni að frumvörp séu samin annars staðar en á Alþingi og þetta er eitthvað sem ég hef margoft nefnt. Það er nefnilega svo að sá sem setur upp texta í upphafi ræður mjög miklu um endanlega gerð hans og sá sem semur frumvarp í upphafi ræður miklu um hvernig lagasetningin verður. Hann þarf ekki að rökstyðja af hverju þetta og hitt stendur í drögunum sem hann leggur upp. Allir aðrir sem koma að frumvarpinu eftir það þurfa að rökstyðja af hverju þeir vilja breyta því.

Því miður er það þannig þar sem við erum komin með mjög sérhæfða starfsemi, ég nefni t.d. samkeppnislög og margt, margt fleira sem er orðið óskaplega flókið, að þeir einir hafa best vit á þessu sem starfa við framkvæmd laganna. Þeim er oft falið það verkefni að semja lögin og síðan þurfa allir aðrir að rökstyðja breytingar á drögunum sem þeir hafa sett upp. Vald þeirra er því að verða mjög mikið, þ.e. vald sérfræðinganna sem gætu jafnvel verið að smíða vopn í hendurnar á sér í baráttunni við borgarana. Ég nefni t.d. skattalögin í því sambandi, þau eru að miklu leyti samin af fólki sem framkvæmir lögin.

Ég hef lagt fram og reifað hér hugmynd áður, ekki reyndar formlega, að í stað þess að framkvæmdarvaldið semji frumvörp og komi með þau til Alþingis, verði þessu breytt þannig að framkvæmdarvaldið ásamt hagsmunaaðilum, einstaklingum, samtökum og öðrum gætu komið hugmyndum að lagabreytingum og þörf fyrir lagabreytingar á framfæri við nefndir þingsins eða einstaka þingmenn, og síðan tækju nefndirnar ákvörðun um hvort ástæða væri til að semja frumvarp og létu síðan semja frumvarpið á Alþingi. Þau frumvörp yrðu svo rædd og send til ráðuneytis og annarra til að kanna hvernig gengi að framkvæma þau. Það er náttúrlega dálítið undarlegt fyrirkomulag núna að aðilar sem framkvæma lögin, eins og framkvæmdarvaldið, semji frumvörp og síðan séu þingmenn í því að kanna hvernig gengur að framkvæma lögin. Þetta ætti að vera öfugt.

Hugmynd mín gengur út á það að nefndir þingsins semji lög, sendi þau síðan til umsagna til ráðuneytis og annarra aðila í þjóðfélaginu sem málið varðar, eins og gert er í dag að einhverju leyti, og síðan yrði málið afgreitt. Þessu yrði sem sagt snúið við. Þetta er náttúrlega mjög byltingarkennd hugmynd af því að mér skilst að í öðrum þjóðþingum sé þessu nákvæmlega eins farið og er hér á landi núna.

Síðan finnst mér nauðsynlegt að í stjórnarskránni sé einhver staðar minnst á vald Hæstaréttar. Hann er ekki nefndur á nafn í stjórnarskránni. Í stjórnarskránni eru einungis þrjár greinar um dómsvaldið, mjög veikbyggðar að mínu mati. Ég vil gjarnan koma inn ákvæðum um Hæstarétt í stjórnarskrána og alveg sérstaklega þegar Hæstiréttur kemur fram sem stjórnlagadómstóll, þegar hann sker úr um það hvort lög frá Alþingi standist stjórnarskrána. Þá tekur hann sér mjög mikið vald eins og hann hefur gert á undanförnum árum.

Ekki verður litið á þróun valds öðruvísi en að líta á fjármálamarkaðinn og fjármál. Í greinargerð með tillögunni er nefnt það gífurlega vald sem felst hjá lífeyrissjóðunum sem er fé sem ég vil kalla fé án hirðis. Eigandinn er að mínu mati sjóðfélaginn. Ég sé engan annan eiganda að því fé. Það er sjóðfélaginn sem á þetta fé en aðkoma hans að stjórnun þessa fjár er mjög veik. Það eru bara tveir lífeyrissjóðir í landinu sem eru með beint lýðræði og þeir eru frekar litlir. Stærstu sjóðirnir eru með tilnefningar þar sem stjórnir þeirra eru tilnefndar á lokuðum fundum. Stjórnir lífeyrissjóðanna hafa gífurlega mikið vald þar sem þær fara bráðum með eitt þúsund milljarða króna og geta farið að stjórna landinu og miðunum meira og minna og gera það reyndar að miklu leyti.

Ekki er hægt að fjalla um þróun valds og lýðræðis án þess að geta um fjölmiðlavaldið. Fjölmiðlarnir hafa það vald að segja mér hvað er að gerast. Fjölmiðlar segja mér hvað gerist í þjóðfélaginu þannig að ég geti tekið ákvörðun um hvað er rétt eða rangt, tekið afstöðu til mála. Fjölmiðlarnir ákveða þar með hvaða skoðun ég, sem borgari, hef á vissum málum. Þeir geta mótað þá skoðun. Þess vegna er mikilvægt að fjölmiðlar séu óháðir og fjölbreyttir.

Nú hefur það gerst, sem er kannski einsdæmi, að mjög sterkur aðili á fjármálamarkaði er að seilast til valda í fjölmiðlun. Þá vaknar upp spurningin: Hvað gerist ef sá fjölmiðill þarf að gagnrýna þá sem eiga hann? Hvernig standa málin með aðra fjölmiðla? Eru þeir kannski jafnháðir? Getur verið að starfsmenn annarra fjölmiðla sjái í þessum fjölmiðli möguleika á vinnu, hluta af vinnumarkaði þeirra, jafnvel starfsmenn Ríkisútvarpsins? Sjá þeir fram á að geta hugsanlega fengið starf hjá Norðurljósum, sem ég er að tala um, og gæti þess þar af leiðandi að grípa ekki inn á valdsvið þess fjölmiðils?

Þess vegna má segja að örlög fjölmiðlafrumvarpsins hafi kannski verið ráðin fyrir fram, vegna þess að þar hafi verið barist við fjölmiðla sem voru orðnir svo sterkir að þeir yrðu ekki knésettir. Það getur náttúrlega verið mjög hættulegt lýðræðinu. Ég bind vonir við að slík tillaga um rannsókn á þróun valds og lýðræðis leiði það í ljós.