131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[17:32]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég tel að hér sé um að ræða mjög áhugaverða þingsályktunartillögu og beri að fara rækilega í gegnum hana. Ég tel mjög þarft fyrir lýðræðislega umræðu að fara í gegnum tillögu sem þessa.

Í fyrsta lagi hefur verið rætt um þrískiptingu ríkisvaldsins. Það er náttúrlega kominn tími á að ræða þá hluti í ljósi þess er Ísland lýsti yfir stuðningi við Íraksstríðið. Þá voru án efa, a.m.k. í mínum huga, þingsköp Alþingis brotin. Það er mjög alvarlegt og furðulegt að menn skuli hafa reynt að eyða þeirri umræðu. Það er nauðsynlegt fyrir þjóðþingið að skoða hvort menn geti brotið þingsköp Alþingis og gengið gegn lögum og þeim ásetningi þjóðarinnar að fara aldrei með ófriði á hendur öðrum þjóðum.

Hér er einnig fjallað um hvort óeðlileg völd séu færð til embættismanna. Ég er ekki viss um að svo sé en í stjórnmálabaráttu minni hef ég orðið var við að margir landsbyggðarþingmenn, sérstaklega stjórnarflokkanna, virðast reyna að skjóta sér á bakvið það þegar kemur að stefnu flokkanna í garð landsbyggðarinnar að henni ráði embættismannavaldið í Reykjavík og þeir ráði ekki neitt við neitt. Það er auðvitað furðulegur málflutningur sem ég hef nokkuð oft orðið vitni að. Ég hafna honum.

Ég tel að skoða ætti annan þátt í tillögunni hvað varðar völd, þ.e. áhrif Evrópusambandsins og Brussel á reglugerðir og lög á Íslandi. Mikill hluti reglugerða kemur nánast beint frá Brussel hvað varðar hina og þessa hluti. Því miður hef ég einnig orðið var við að á hinu háa Alþingi hafi stjórnmálamenn, til að verja óvinsælar ákvarðanir og reglugerðir, svo sem hæstv. landbúnaðarráðherra, reynt að klína einhverjum óþverra á Brussel sem Brussel hefur ekki átt skilið. Dæmi um slíkt er t.d. lokun sláturhúsa. Hæstv. landbúnaðarráðherra hefur í því sambandi vísað til Evrópureglna. En allir sem eitthvað kynna sér málin sjá fljótlega að Evrópusambandið hefur ekkert um þau mál að segja. Þær ákvarðanir eru alfarið og eingöngu á ábyrgð hæstv. landbúnaðarráðherra.

Sama gildir um ýmsa þingmenn. Ég gæti t.d. nefnt Einar Odd Kristjánsson. Hann hefur oft deilt á lélegt fiskveiðistjórnarkerfi og kennt Hafrannsóknastofnun um það. Það er náttúrlega af og frá þar sem Hafrannsóknastofnun er undir stjórn ráðherra og lýtur pólitísku valdi. Þar er enn eitt dæmi um að menn reyni að skjóta sér undan pólitískri ábyrgð með því að benda á embættismenn. Ég tel að það sé oft notað til að drepa málum á dreif.

Hvað varðar efnahagsleg áhrif og völd, þau eru til staðar og það vita allir, tel ég nauðsynlegt að hafa einfaldlega allt uppi á borðinu. Það er nauðsynlegt og orðið löngu tímabært að íslenskir stjórnmálaflokkar opni bókhald sitt þannig að öllum megi verða ljóst hverjir styrkja íslenska stjórnmálaflokka. Ástandið sem hér ríkir er algjörlega óviðunandi.

Þegar ég minntist á það í andsvörum við hv. þm. Hjálmar Árnason fyrr í umræðunni taldi ég í sannleika sagt að hann mundi fagna þeirri umræðu og Framsóknarflokkurinn ætlaði í raun að breyta stefnu sinni, opna bókhaldið og koma því undir eftirlit Ríkisendurskoðunar. Því miður voru svör hans eingöngu á þann veg að ég væri með ómálefnalega umræðu. Ég hafna því algjörlega. Á síðustu vikum og mánuðum hefur ítrekað komið fram að Framsóknarflokkurinn hafi fengið greitt í kosningasjóði frá stórfyrirtækjum og vilji ekki gefa upp hverjir hafa greitt í kosningasjóðinn.

Fyrrverandi gjaldkeri flokksins, Unnur Stefánsdóttir, greindi auk þess frá því að bæði einstaklingar og fyrirtæki hefðu greitt til flokksins og með því launað flokknum, sérstaklega þeir sem hafa fengið háar stöður í gegnum flokkinn, þ.e. greitt með því til baka í sjóði flokksins. Auðvitað þarf að rannsaka svona hluti. Það er ekki nóg að afneita þeim. Þetta er grafalvarlegur hlutur sem verður að skoða, hverjir hafi greitt í sjóði flokkanna og hvaða áhrif þau fyrirtæki hafi haft á stefnu flokkanna.

Ég efast ekki um að þeir sem hafa greitt til flokkanna hafi haft mikil áhrif á stefnu þeirra. Ég er ekki einn um þá skoðun. Sömu skoðunar eru einnig prófessorar í háskólanum, t.d. Svanur Kristjánsson prófessor, en hann segir orðrétt í fréttum Ríkisútvarpsins, með leyfi frú forseta:

„Við sjáum líka þessi tengsl í gegnum það hvernig einkavæðing bankanna fór fram, hverjir fengu að kaupa banka og hverjir fengu ekki að kaupa bankana. Og ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt að flokkarnir almennt, og þá sérstaklega Framsóknarflokkurinn sem fór nú með viðskiptaráðuneytið, en flokkarnir almennt verði bara með hreint borð.“

Ég tek undir það. Það er orðið löngu tímabært að fara í þá umræðu. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur oft rætt um þessa hluti og ég styð hana heilshugar í þessu máli. Það þarf að opna bókhald flokkanna.

Hér hafa komið fram fleiri atriði varðandi fjármál stjórnmálaflokkanna sem skoða þarf betur. Þótt menn telji að ég sé með ómálefnalegan málflutning þá get ég bent á að í ágætu dagblaði kemur fram að Framsóknarflokkurinn hafi hreinlega verið í peningaáskrift hjá stórfyrirtækjum. Þetta er eitt af því sem nauðsynlegt er að fara yfir. Því fyrr, því betra.