131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[17:41]

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs vegna orða hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar um fjármál stjórnmálaflokkanna. Hv. þm. fór þar út í umræðu sem hann átti í þessum ræðustól í dag við hv. þm. Hjálmar Árnason. Hann blandaði inn í þá umræðu prófessor frá Háskóla Íslands, sem hann titlar sem slíkan, en lætur þess ekki getið að viðkomandi prófessor er jafnframt fyrrverandi frambjóðandi til formanns í stjórnmálaflokki, án þess ég sé að kasta rýrð á þann ágæta mann.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson hefur líka, í þessari ágætu umræðu sem hér hefur farið fram um hreint frábærlega unnið þingmál, nefnt fyrrverandi gjaldkera Framsóknarflokksins og vísar í orð hennar í fjölmiðlum. Hann lætur að því liggja að það hafi mátt skilja orð hennar þannig að þeir sem hefðu styrkt flokkinn fjárhagslega, á sama hátt og allir aðrir flokkar njóta stuðnings fyrirtækja og einstaklinga, hafi vænst þess að bera eitthvað úr býtum fyrir það. Af þessu tilefni vil ég gjarnan árétta við hv. þingmann að í Framsóknarflokknum erum við með svokallað styrktarmannakerfi. Þeir sem kjósa að ganga í flokkinn greiða líka félagsgjöld. Sumir kjósa að greiða meira en aðrir, einnig þeir sem eru kjörnir fulltrúar, bæði til Alþingis og sveitarstjórna, til að standa straum af flokksstarfinu.

Ég held það hafi verið þau framlög sem fyrrverandi gjaldkeri Framsóknarflokksins nefndi. Mér fannst það heldur óþinglegt, af því hv. þm. Hjálmar Árnason er farinn úr þingsalnum, að taka þessa umræðu upp á ný.

Að öðru leyti, frú forseti, vildi ég fyrst og fremst taka undir efni þessa ágæta þingmáls, þeirrar tillögu til þingsályktunar sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, sem nú er í forsetastól, er 1. flutningsmaður að.

Ákveðin mál sem hafa verið í umræðunni síðustu missiri, bæði ákveðin málefni, þjóðfélagsmál sem hafa risið hátt, m.a. í sölum þingsins, og ákveðnir hlutir sem við þingmenn rekum okkur á frá degi til dags, gefa tilefni til þeirrar rannsóknar sem þessi þingsályktunartillaga gengur út á.

Það má kannski segja að þar til upp koma mál eins og svokallað fjölmiðlamál síðasta sumar þá göngum við út frá því að lýðræðið sé sjálfgefið en það er engan veginn sjálfsprottið. Það sjáum við m.a. af því þjóðskipulagi sem ríkir til að mynda hjá mörgum af nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins.

Ég held að rannsókn af þessu tagi varði sameiginleg hagsmunamál allra þingmanna og allra flokka, þ.e. að skoða grundvöll lýðræðisins, hvort þrískiptingu ríkisvaldsins sé á einhvern hátt ógnað með þeirri þróun sem orðið hefur, m.a. með breytingum á viðskiptamarkaði og auknum áhrifum fjölmiðlanna, sem oft eru kallaðir fjórða valdið.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hafði orð á því fyrr í umræðunni að hann sæi ekki hvers vegna við ættum ekki að samþykkja þetta. Ég gat svo sem fallist á það. Þingmálið gengur fyrst og fremst út á það að forsætisráðherra feli ákveðinni nefnd að undirbúa þetta mál og sú nefnd eigi síðan að leggja verkefnaáætlun og fjárhagsramma fyrir forsætisráðherra sem geri síðan tillögu til Alþingis um nauðsynleg fjárframlög til verksins.

Á hinn bóginn vil ég bara rifja upp, frú forseti, að hæstv. forsætisráðherra hefur boðað að ráðist verði í endurskoðun á stjórnarskránni og á fleiri en einum kafla stjórnarskrárinnar. Hefði þeirri rannsókn sem hér er nefnd verið lokið þá kæmi svoleiðis að góðu gagni í þeirri vinnu. En spurningin er sú hvort einhvers staðar skarist þau verkefni sem þessi þingsályktunartillaga lýtur að og þau verkefni sem má hugsa sér að endurskoðunarnefnd tæki sér fyrir hendur.

Annað sem ég vil líka nefna í þessu samhengi er að á vegum norrænu ráðherranefndarinnar undir formennsku Íslands núna það sem af er þessu ári hefur farið fram mjög merkileg rannsókn, samnorræn rannsókn á þróun lýðræðisins á Norðurlöndunum. Ég held að sú rannsókn sé engan veginn jafnviðamikil og gert er ráð fyrir í þessu ágæta þingmáli. En mér datt í hug hvort það skaraðist á einhvern hátt eða hvort það ætti við vinnu þessa þingmáls að horfa sérstaklega til þeirrar rannsóknar og hvort einhver skörun sé og hugsanlega megi nota þá vinnu á vegum norrænu ráðherranefndarinnar í þeirri vinnu sem hér er fyrir mælt.

Meðal annars kom fram í þeirri rannsókn að lýðræðið sé á undanhaldi. Fulltrúalýðræðið er í tilvistarkreppu til að mynda í Noregi þar sem einungis var um 50% þátttaka í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Reynslan er sú að kosningaþátttaka er að aukast í Danmörku og sitthvað fleira kom þar áhugavert í ljós. Eitt af því sem kom í ljós var m.a. að tiltrú fólks á kjörnum fulltrúum er að minnka víða á Norðurlöndunum en á móti koma aukin áhrif þrýstihópa eða svokallaðra frjálsra félagasamtaka.

Frú forseti. Ég vildi fyrst og fremst taka undir þetta ágæta mál og hrósa vinnunni við það en hefði nú gjarnan viljað sjá flutningsmenn þingmenn úr fleiri flokkum en Samfylkingunni vegna þess að ég held að þetta sé ágætis þingmál sem þingmenn allra flokka ættu að geta sameinast um. Málið er, svo ég endurtaki það einu sinni enn, að mínu mati alveg sérlega vel unnið.