131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[17:54]

Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að sú sem hér stendur og hv. þm. Helgi Hjörvar látum okkur jafnannt um tiltrú á stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum og deilum ýmsum skoðunum að því leyti. Ástæðan fyrir því, eins og ég sagði í upphafi, að ég kvaddi mér hljóðs í þessari umræðu voru dylgjur í garð tiltekins stjórnmálaflokks. Ég vek líka athygli á að þeim hefur ekki verið svarað með dylgjum í garð annarra. Ég held að við ættum að gera sem minnst af því að vera með slíkar og því um líkar dylgjur. Það er alltaf álitamál (Gripið fram í.) hvar þær lenda verst ef út í það er farið.

Af því tilefni, af því að það er skoðun mín að við eigum að forðast það sem mest þá styð ég þetta þingmál. Ég held að einhvers staðar liggi skýrslubeiðni sem lýtur að fjármálum stjórnmálaflokkanna, sem ég geri mér vonir um að verði orðið við fljótlega, og ég segi eins og hv. þm. Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, að ég sé því ekkert til fyrirstöðu að ríkisendurskoðandi komi að þessu máli eins og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur líka sagt og get að því leyti tekið undir orð hv. þm. Helga Hjörvars.