131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Rannsókn á þróun valds og lýðræðis.

21. mál
[18:05]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins nýta mér möguleikann á að koma í stutt andsvar til að segja hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að í önnum mínum úti á skrifstofu hef ég fylgst með áhugaverðri umræðu um þetta athyglisverða þingmál. Ég vil lýsa því yfir að þetta mál á allan minn stuðning. Það voru sannarlega orð í tíma töluð sem hv. þingmaður lét falla í framsöguræðu sinni. Í landi þar sem farið er að gæta sömu áhrifa og í stórum löndum í kringum okkur, þar sem valdsvið stjórnmálamanna og ríkisstjórna virðist sífellt verða veikara og vald stórfyrirtækja, fjármálafyrirtækja ekki síst, er að verða áþreifanlegt, jafnvel inni í stjórnkerfi ríkisstjórnanna, þá er sannarlega ástæða til að taka þannig á málum sem hér er lagt til. Ég vil lýsa því yfir að þetta mál kemur til með að fá stuðning minn í allsherjarnefnd þingsins þegar það kemur til umfjöllunar þar.