131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Íslenska táknmálið.

277. mál
[18:29]

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég kem hér upp til að lýsa svipuðum almennum stuðningi við þetta mál og ég gerði í fyrra. Ég geri það fyrir hönd flokks míns sem því miður er ekki aðili að ríkisstjórn en verður það innan skamms.

Ég vil segja í tilefni af orðum hv. flutningsmanns um menntamálanefnd að þau eru alveg rétt. Frumvarpið kom inn í þingið að ég hygg á svipuðum tíma í fyrra og fór til menntamálanefndar eftir 1. umr., lá þar allan veturinn og var ekki rætt. Í rauninni gerðist ekkert með það nema að leitað var umsagna eins og skylt er. Þó má kannski segja að óbeint hafi orðið ákveðinn árangur af skörulegri framsögu flutningsmanns og vinnu hennar við frumvarpið, sem ég kem að síðar.

Það er þó nánast sorglegt fyrir okkur sem sátum hér í fyrra og urðum flutnings hv. þingmanns áheyrsla að ekkert skuli hafa gerst eftir þetta eina ár vegna þess að þegar málið var flutt hér í fyrra var það fyrir okkur sum ákveðin uppgötvun og stund sem ég held að við gleymum ekki, þ.e. í fyrsta sinn sem þetta tungumál var notað í sölum Alþingis Íslendinga, og ég held að þeir sem sátu hér og hlustuðu á það í fyrra hafi svona í huganum heitið stuðningi sínum við þennan málstað nema þeir væru úr steini, sem þeir eru held ég ekki.

Það er ekki aumingjagæska eða einhvers konar tilfinningasemi sem stendur á bak við það heldur ósköp einfaldlega jafnréttishugsjónir og hugmyndir jafnaðar sem standa til þess að fólk sem hefur þetta mál að tjáningarformi á að standa jafnfætis og hafa sama rétt og við hin sem tjáum okkur með öðrum og hefðbundnari hætti.

Það er ekki bara þetta mál sem hér er endurflutt heldur nær þessi saga því miður langt aftur í tímann. Nefnd á nefnd ofan á opinberum vegum, barátta sem því miður hefur haft of lítinn árangur og skal þó ekki vanvirt það sem vel er gert, svo sem þær milljónir sem hæstv. menntamálaráðherra lagði í félagslega táknmálstúlkun fyrr í haust og ber engan skugga á þó að það takist fram að til þess þurfti fyrst mótmæli heyrnarlausra fyrir utan þingið og síðan utandagskrárumræðu af hálfu stjórnarandstæðings, hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Það var vel gert og skörulega, en eins og hv. þingmaður vakti athygli á þá er þetta redding, það er til skamms tíma sem menntamálaráðherra kom þessum hlutum í lag og þeir hafa ekki verið festir niður á sínum stað í stjórnkerfinu, eru að ég hygg veittir nú annaðhvort af ráðstöfunarfé ráðherra eða potti ríkisstjórnarinnar en eru ekki í fjárlagafrumvarpinu á sínum stað í yfirliti yfir fjárveitingar frá menntamálaráðuneytinu eða gegnum menntamálaráðuneytið eins og vera ætti.

Af hverju sinnum við þessu svona dauflega? Það strandar á fé og strandar á áhuga- og sinnuleysi, strandar kannski á því að heyrnarlausir, heyrnarskertir og daufblindir eru ekki svo stór hópur að flokkarnir sækist sérstaklega eftir stuðningi þeirra eins og er stundum um aðra hópa, og hann hefur ekki, ef ég má orða það kímilega, mjög hátt um sinn vanda. Það er þó að aukast, og í takt við aukinn þrýsting þeirra og aðstandenda þeirra opnast auðvitað flokkarnir líka og stjórnmálakerfið allt.

Ég held að þriðja ástæðan sé sú, og þá kem ég kannski að hinum óbeina árangri sem ég tel að hv. flutningsmaður hafi náð í fyrra, að við höfum ekki sinnt því, þrátt fyrir margyfirlýsta aðdáun á eigin tungumáli og fjölda ástarheita við íslenskuna, að hirða um stöðu íslenskunnar í samfélagi okkar. Við það hafa heyrnarlausir, heyrnardaufir og daufblindir orðið varir því þegar þeir sækja fram og vilja að mál þeirra sé sett jafnt íslensku okkar hinna og fara að skoða lögin og reglurnar sem gilda um hana kemur í ljós að sjálf þjóðtungan er ekki þjóðtunga nema í munni okkar. Á hana er ekki minnst í stjórnarskránni, um hana er óvíða fjallað í lögum og það þýðir að þegar kemur að þeim sem ekki tala íslensku, að táknmálinu og líka nýbúum, ég er ekki að jafnsetja þá heyrnarlausum, heyrnardaufum og daufblindum, en þeir eiga líka við þennan vanda að stríða, að þeir ná ekki þeim rétti sem væri eðlilegt að þeir hefðu, t.d. til þýðinga eða túlkunar, vegna þess að staða íslenskunnar er svo vanskýrð.

Fleira má nefna sem hvetur til þess að hún skýrist betur og þar er auðvitað hnattvæðingin stikkorðið. Á Íslandi höfum við alltaf, frá upphafi landnáms, í raun og veru lifað í veröld margra tungumála þótt íslenskan hafi verið sterkust. Það gerðist líka í gegnum alla Íslandssöguna og það á sér enn stað en núna í auknum mæli og miklu hraðar en áður þannig að okkur ber skylda til þess, sem erum í þessum sal og eigum að heita stjórnvöld í landinu, að skilgreina hlut íslenskunnar, skilgreina hlut móðurmáls eða a.m.k. fyrsta máls þeirra sem ekki geta talað íslensku og skilgreina hlut annarra mála sem koma okkur við, bæði alþjóðamálanna og mála þess fólks sem hefur kosið að flytjast hingað og gerast Íslendingar.

Ég flutti um þetta tillögu ásamt ýmsum ágætum hv. þingmönnum öðrum úr öllum flokkum í fyrra. Henni var vísað til ríkisstjórnarinnar og þegar það var ákveðið í menntamálanefnd að leggja það til skildi ég það svo að það væri m.a. vegna þess málflutnings sem hv. flutningsmaður hafði hér í frammi í fyrra, vegna þess að sérstaklega var tekið til táknmáls heyrnarlausra í þessari tillögu minni.

Um leið og ég sakna þess að hæstv. menntamálaráðherra skuli ekki vera hér, sem er kannski ekki von, og heldur enginn úr hennar flokki viðstaddur umræðuna þá heiti ég því að halda áfram að berjast fyrir því að tekið verði mark á þessari tillögu minni í ríkisstjórninni og hyggst sækja það mál hér skörulega næstu árin, bæði fyrir íslenskuna sem mér þykir vænt um og fyrir táknmál heyrnarlausra sem ég tel að eigi að eiga sama rétt.

Ég ætla ekki að fjalla efnislega um einstakar greinar í þessum málum. Ég gerði það í fyrra og ég hef sama fyrirvara, og vil taka það fram til þess að vera bara hreinskilinn með það, um ákveðna hluti í því, m.a. notkun táknmáls í fjölmiðlum. Við verðum að finna einhverja málamiðlun á milli hins fyllsta réttar annars vegar og hins vegar þess að á Íslandi eru fjölmiðlar ekki sterkir og ef við setjum of miklar kröfur á þá um kostnað er hætt við að þeir nái ekki þeirri breidd sem til þarf og því afli sem þeir þurfa að hafa. Ég segi „málamiðlun“ á þessu sviði sem ég tel að hægt sé að ná með t.d. aukinni túlkaþjónustu.

Ég vil svo segja að mér fannst ræða hv. flutningsmanns athyglisverð og sérstaklega kannski þegar hún benti á að hinn mikli galli okkar og sá eilífi tilvistarvandi að vera fámenn þjóð, smáþjóð, gæti reynst okkur kostur í þessu efni. Við erum fámenn þjóð, við höfum þess vegna mikla nánd, við höfum yfirsýn yfir hvern og einn í samfélagi okkar og þurfum ekki að umgangast fólk eins og ópersónulegar stærðfræðistærðir, einhverja hópa, og við búum við það sem margir hafa talið illt að samþjöppun byggðarinnar er orðin töluverð. Það þykir mörgum ókostur en það er kostur í þessu dæmi því þá væri hægt að reiða fram þjónustu fyrir mjög stóran hóp landsmanna á einum stað eða í raun og veru einu byggðarlagi. Ef við tökum höfuðborgarsvæðið, hvort sem við tölum um það sem höfuðborgarsvæðið hið minna sem er þá Reykjavík og nágrenni, eða höfuðborgarsvæðið hið stærra, þríhyrninginn Keflavík, Akranes, Selfoss, þá má koma við töluverðri þjónustu og tiltölulega ódýrri miðað við þau lönd þar sem miklu meiri dreifing er á íbúum.

Mér þóttu þetta merkileg ummæli og lýk máli mínu þar en þó með því heiti að meira verði gert í menntamálanefnd að þessu sinni. Ég held að okkur sem þar sitjum sé skylt að gera það og reyna á sem kostur er hvernig við getum fylgt þessu máli fram, ef ekki frumvarpinu sjálfu þá að skapa einhverjar aðstæður til þess að stigin verði skref fram á við í þessu efni sem hafa verið ákaflega fá og tilþrifalítil á undanförnum árum.