131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Íslenska táknmálið.

277. mál
[18:41]

Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því frumvarpi sem við ræðum hér og ég vil segja í upphafi að ég tek fyllilega undir meginmarkmið frumvarpanna beggja en verð samt að viðurkenna að það sem ég staldra kannski við er umfangið, en samkvæmt orðanna hljóðan í frumvörpunum ætti ríkisvaldið að tryggja túlkaþjónustu alls staðar og alltaf. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort möguleiki sé á því að þrengja hringinn eitthvað. Ég get tekið sem dæmi hvort þurfi túlka í allar kirkjur þegar messur standa yfir, í allar verslanir o.s.frv. Í því tilliti tek ég undir með hv. þm. Merði Árnasyni varðandi fjölmiðlana, að við reynum að finna einhverja málamiðlun og þar gætum við á einhvern hátt kannað til að mynda búsetuna og reynt að þrengja hringinn og gera skynsamlega áætlun sem kæmi til móts við heyrnarlausa.

Ég er sammála því sem segir í frumvarpinu um að efla táknmálsfræðinám. Ég er þess minnug þegar Háskóli Íslands felldi niður nám í táknmálsfræði, það var ekki gott ástand. Ég velti því líka upp í þessari umræðu og ég hef reyndar lengi verið þeirrar skoðunar hvort ekki væri athugandi að kenna einhver grunnundirstöðuatriði táknmáls í grunnskólum, vegna þess að ég held að það sé mjög mikilvægt að t.d. krakkar læri það, þau eru svo fljót að grípa þetta og það mundi þá líka jafna aðstöðu þeirra barna sem glíma við heyrnarleysi.

Annar punktur í þessu er líka sá sem snertir atvinnulífið. Ég held að það væri mjög þarft verkefni að stór fyrirtæki, og að sjálfsögðu þau smærri líka ef möguleiki er á, sendu þó ekki væri nema einn starfsmann í fyrirtækinu á námskeið þannig að hægt væri að bjarga sér með táknmál og að viðkomandi starfsmaður gæti þá aðstoðað heyrnarlausa. Ég held að þetta yrði ekki lengi að vinda upp á sig og mér finnst að það ætti að vera sjálfsögð þjónusta. Til að mynda var þetta gert, veit ég, í Seðlabanka Íslands. Þar var starfsmaður sendur á námskeið til að læra grunnundirstöðuatriði og ég vissi reyndar til þess að sá starfsmaður starfaði á kvöldin í sjoppu hér í bæ og það var orðið þannig að mjög margir heyrnarlausir sóttu þjónustu þangað vegna þess að þeir voru auðvitað svo ánægðir með að einhver skildi þá og þeir gætu virkilega mætt á svæðið og talað á sínu tungumáli. Ég held að þetta sé punktur sem við ættum að horfa á og ég nefndi þetta einmitt í utandagskrárumræðu nýlega hvort ekki væri á einhvern hátt hægt að skora á atvinnulífið að bregðast við þessu.

Hér var utandagskrárumræða um daginn þar sem hæstv. menntamálaráðherra gaf það út að hún eða ríkisstjórnin hefði ákveðið að leggja til aukafjármagn í félagslega táknmálstúlkun. Ég tel að þetta sé mikilvægt skref í réttindabaráttu heyrnarlausra og fagna þessu mjög enda ákaflega brýnt.

Hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir kom inn á það áðan í framsögu sinni að hún er tilbúin að skoða allar lausnir sem skerða ekki réttindi heyrnarlausra. Ég held að þetta komi nákvæmlega inn á það sem ég ræddi áðan, hvort við gætum einhvern veginn reynt að þrengja þetta án þess þó að skerða réttindin því að þetta er dálítið víðtækt í frumvörpunum. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að ekki sé nóg að viðurkenna táknmálið en fylgja því ekki eftir með aðgerðum. Því tel ég afar brýnt að vanda vel til verks.

Ég ætla ekki að fara nákvæmlega í greinar frumvarpsins. Ég vil aðeins segja að ég tel að þessi atriði verði að skoða í hv. menntamálanefnd og mun reyna að beita mér fyrir því. Við hljótum að geta fundið viðunandi lausn sem yrði þá upphaf á þessu máli.