131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Íslenska táknmálið.

277. mál
[18:57]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er kannski ekki ástæða til að lengja umræðuna því ég get tekið undir það sem þeir hv. þingmenn sem hafa tekið þátt í henni á undan mér hafa sagt. Ég fagna því að málið skuli vera komið fram á nýjan leik. Ég tók undir það við 1. umr. á síðasta þingi á þeim nótum sem ég geri hér. Ég styð þetta mál heils hugar með oddi og egg enda er ég fyrir hönd míns flokks, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, einn af flutningsmönnum þess.

Hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir hefur brotið í blað í sögunni með því að færa íslenska táknmálið hingað á vettvang Alþingis Íslendinga. Það hefur hún gert með miklum glæsibrag. Þjóðin hefur fylgst með og dáðst að henni fyrir það hve sköruleg framganga hennar hefur verið í þinginu. Hún á heiður skilið fyrir vinnslu þessara frumvarpa sem hún hefur lagt fram. Þau eru nú þegar orðin þrjú. Hér hafa verið nefnd til sögunnar, auk þessara tveggja sem við ræðum nú, frumvarp um textun íslensks sjónvarpsefnis og svo boðar hún í þessu frumvarpi sem hér er til umræðu frumvarp um menningarsetur heyrnarlausra. Ég verð að segja að ég hlakka til að sjá það frumvarp, það fjórða í kippunni um frumvörpin sem snerta málefni heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra.

Ég nefndi menningarsetur heyrnarlausra. Ég vil fá að segja nokkur orð um menningu heyrnarlausra. Ég hef átt þess kost að kynnast örlítið þessum heimi í gegnum menningarstarf því að það gerðist á árum áður að ég fékk að starfa með leikhópi heyrnarlausra. Þar var einn leikendanna einmitt Sigurlín Margrét Sigurðardóttir. Hún lék á sviðinu í Háskólabíói ásamt félögum sínum lystilega litla leiksýningu sem ég fékk að leikstýra þeim í. Ein merkilegasta reynslan frá leikstjórnartíð minni er að hafa fengið að kynnast heimi heyrnarlausra og tungumáli heyrnarlausra sem ég vil leyfa mér að fullyrða að er ekki síður litríkt heldur en íslenskan sem töluð er. Það er tjáningarríkt vegna þess að allur líkaminn er virkur við meðferð málsins. Því er það í raun miklu dramatískara mál en hið talaða orð og þar af leiðandi afar vel fallið til að flytja á leiksviði. Eitt það merkilegasta sem maður getur upplifað er að heyra táknmálskór syngja og ég hvet alla sem ekki hafa heyrt það til að leggja sig eftir því að hlusta á íslenska táknmálskórinn, sem er til, syngja því það er merkileg upplifun, virkilega merkileg. Ég hlakka því til að sjá fjórða frumvarpið í kippunni, frumvarp um menningarsetur heyrnarlausra.

Af því að ég starfa í menntamálanefnd þingsins vil ég taka undir orð hv. þm. Marðar Árnasonar sem sagði fyrr í umræðunni að málið hefði legið í þagnargildi menntamálanefndar allan síðasta vetur. Það var mjög miður. Þetta mál, eins og mörg önnur góð mál, þurfti á lokasprettinum í þinginu hér undir vor að gjalda þess forgangs sem fjölmiðlafrumvarpið hafði. Þetta mál ásamt mörgum öðrum merkum málum var látið liggja kyrrt í möppum þingmanna í menntamálanefnd án nokkurrar umræðu.

Ég tek undir þau orð hv. þm. Marðar Árnasonar að ég kem til með að beita mér ásamt með honum og fleirum í nefndinni auðvitað fyrir því að þetta gerist ekki aftur. Þetta mál verður að taka til umfjöllunar í nefndinni svo fljótt sem kostur er.

Hér hefur verið sagt að um mannréttindamál sé að ræða, mikið jafnréttismál, og það er að sjálfsögðu rétt og eðlilegt að taka undir það. Mér þykir til fyrirmyndar hvernig hv. þm. Sigurlín Margrét Sigurðardóttir hefur fært hingað inn á okkar vettvang lítinn hóp sem hefur ekki notið jafnréttis eða mannréttinda í samfélagi okkar, kannski minni mannréttinda en nokkrir aðrir hópar í samfélaginu, og það eru daufblindir. Það hvernig málefni daufblindra hafa fengið sérstakan sess í ræðum hv. þingmanns þegar hún hefur talað fyrir þessum málum hefur virkilega opnað augu mín og eflaust margra annarra sem á hafa hlýtt fyrir málefnum þessa hóps. Hann er lítill og það er svo mikil hætta á að svona litlir hópar hafi ekki afl til að berjast fyrir hagsmunum sínum en hv. þingmaður hefur lagt sitt af mörkum til þess að breyta því. Á hún heiður skilinn fyrir það.

Hv. þm. Mörður Árnason sagði að þessi hópur hefði almennt ekki hátt, sagði það kímilega, en ég vil rifja það upp með hv. þingmönnum að fyrir umræður um stefnuræðu forsætisráðherra í haust ætluðu heyrnarlausir baráttumenn hreint að æra okkur sem stóðum hér í þessum sal með flauti miklu þar sem heyrnarlausir mættu með miklar blístrur á Austurvöll og virkilega létu í sér heyra. Ég treysti því og veit að heyrnarlausir halda áfram að hafa hátt þangað til málefni þeirra eru komin í höfn. Þau eiga það sannarlega inni því að þessi mál hafa legið í láginni allt of lengi.

Ég lýsi hér yfir, hæstv. forseti, öflugum stuðningi við þetta mál, stuðningi mínum og þingflokks míns, og ég treysti því að málið fái brautargengi og örugglega einhverja umræðu í menntamálanefnd á þessum vetri.