131. löggjafarþing — 30. fundur,  15. nóv. 2004.

Íslenska táknmálið.

277. mál
[19:07]

Flm. (Sigurlín Margrét Sigurðardóttir) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega þeim þingmönnum sem hafa tjáð sig um þessi mál.

Mig langar að svara hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur, aðeins að nefna nokkur atriði sem hún talaði um. Mér finnst það einmitt mjög góð hugmynd að börn í grunnskóla læri táknmál. Þetta er þeim mjög aðgengilegt og þau eiga mjög auðvelt með að tileinka sér þetta mál, en þá spyr ég á móti: Hvar eru táknmálskennararnir sem eiga að kenna börnunum? Í frumvarpinu er einmitt talað um að það vanti menntun, fleiri menntaða táknmálskennara. Hv. þingmaður óskaði sérstaklega eftir þessu en við þurfum að bæta stöðu þeirra heyrnarlausu sem leggja þetta fyrir sig.

Síðastliðin ár hefur verið einstefna hjá ríkisvaldinu. Samfélag fyrir alla, ég hef oft fengið það á tilfinninguna að Ísland sé ekkert samfélag fyrir alla. Samt er ákveðin stefna til varðandi þessi mál. Ég sjálf mundi vilja að táknmálið kæmi inn í þetta samfélag fyrir alla.

Alveg eins og ég sagði áðan í lokaorðum mínum er ég tilbúin til að skoða allar leiðir sem stjórnarflokkarnir sjá, einmitt ræða það hvaða leiðir eru færar í þessum efnum til að réttur okkar sé tryggður. Ég vil gjarnan hitta stjórnarflokkana svo að við getum komið okkur saman um góðar tillögur.

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir talaði um menningarsetur og er spennt fyrir því að sjá það frumvarp komast hingað inn en því miður er ekki hægt að vinna það núna vegna þess að kostnaður við táknmálsfrumvarpið var mikill og það var sett í forgang. Umræðan um táknmálsmenningarsetrið er hins vegar auðvitað tengd aðgangi okkar að menningu.

Ég þakka öllum kærlega sem töluðu hér í dag og óska þess að frumvarpið fái umræðu í hv. menntamálanefnd.