131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Svar við fyrirspurn.

[13:35]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég harma það ef þetta ágæta svar fer svona fyrir brjóstið á hv. þingmanni. Auðvitað fór ég vel yfir svarið með mínum mönnum og mér sýnist að það skýri allvel það sem um er spurt. (SigurjÞ: Svaraðu spurningunni.) Það er nú svo að löggilding er eitt og sláturleyfi er annað, eins og þarna kemur glöggt fram, þannig að þetta er mjög vel útskýrt en það er ekki von að allir skilji það. Löggilding snýr að húsinu sjálfu og umgjörðinni þar sem þessi atvinna á að fara fram. Sláturleyfi er svo annað en ég vil auðvitað útskýra þetta sem allra best.

Dalamenn eiga ekkert sökótt við mig. Ég hef rakið það í utandagskrárumræðu, ég hef verið hreinlyndur við þá, talað við þá hreina íslensku og sagt þeim hvað er að og reynt að hjálpa þeim. Þeir bera sjálfir mjög mikla ábyrgð á því að þetta hús Byggðastofnunar fór ekki í gang, voru of seinir til o.s.frv. Það þarf ekkert að rekja það frekar. Ég sting upp á því hér af því að allir flokkar eiga fulltrúa í hv. landbúnaðarnefnd að það gæti verið ágætt að embættismenn mínir og aðstoðaryfirdýralæknir kæmu þar á fund til að útskýra þessi mál og fara yfir þau nákvæmlega. Það snýr að tilteknu húsi og jafnræði þess með öðrum sem hafa gengið í gegnum allt sitt og fengið leyfi, bæði löggildingu og sláturleyfi. (SigurjÞ: Þetta er ekki ...)

Ég vil nú, hæstv. forseti, stinga upp á því að hv. landbúnaðarnefnd kannski fari yfir það með embættismönnum, og hv. þm. Sigurjón Þórðarson gæti þá verið fulltrúi Frjálslynda flokksins þann dag ef flokksbróðir hans samþykkir það.