131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Svar við fyrirspurn.

[13:42]

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Eitt er víst að ég er vinur Dalamanna eins og faðir minn heitinn var. Auðvitað vill maður allt fyrir þá gera og hefur miklar tilfinningar gagnvart þeim aðstæðum sem þeir lentu í. Þeir bera samt um margt ábyrgð á því sjálfir.

Það liggur fyrir að það verður að fara að lögum og reglugerðum eins og hv. þm. þekkja. Þar skiptir engu þótt nýir rekstraraðilar komi að. Þeir eru sjálfir með verkfræðistofu og komust að raun um að til þess að húsið stæðist reglugerð yrði að leggja í það einar 50–60 millj. Það var vitað mál hinn 20. júlí þegar þeir hittu mig, ég sagði þeim hreinskilnislega að þeir yrðu eins og önnur hús að fara að reglum og vera í samstarfi um málið þannig að ég þarf ekki að rekja það hér.

Þetta er flókið mál og ég er óhræddur við embættisfærslu þessa máls. Ég treysti embætti yfirdýralæknis vel í málinu. Það vinnur að þessum málum um allt land með sláturhúsunum þannig að það er ekkert að fela í þeim efnum. Ég hef stungið upp á því að hv. landbúnaðarnefnd og hv. þm. Drífa Hjartardóttir sem henni stýrir gæti farið yfir þetta svar til að útskýra það betur á fundi sem getur þá verið miklu málefnalegri kannski en svona stutt umræða hér. Þar geta menn bæði spurt og fengið upplýsingar frá þeim sem um þessi mál fjalla og fást við lögum samkvæmt í landinu. Ég ítreka bara þá ósk mína um leið og ég óska Dalamönnum alls hins besta.

Ég hef engu húsi lokað í Dalasýslu. Það var hins vegar ekki hægt að löggilda það vegna þess að það stóðst ekki reglugerð. (Gripið fram í.) Þeir geta opnað það hús hvenær sem er. Þeir þurfa að koma með fjármagnið og framkvæma verkið og það gera þeir sjálfsagt á réttum tíma fyrir næstu sláturtíð, a.m.k. vona ég það.