131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Staða innflytjenda.

[13:57]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Stór áhrifavaldur í því hvort fordómar gagnvart útlendingum skjóta rótum í samfélagi, hvaða samfélagi sem er, liggur oftar en ekki í viðhorfi stjórnvalda til útlendinga. Þau stjórnvöld sem við búum við hafa gerst sek um fordóma gagnvart útlendingum. Þeir fordómar koma skýrt fram í þeirri löggjöf sem hér gildir um málefni útlendinga og þeir koma fram í þeirri atvinnustefnu sem stjórnvöld hafa rekið á síðari árum. Já, fordómar stjórnvalda koma fram í stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar sem byggir á hnattvæðingu á forsendum stórfyrirtækja og félagslegum undirboðum. Ég ráðlegg hv. þingmönnum Framsóknarflokksins að hlæja ekki að þessu.

Þannig er mál með vexti að löggjöfin okkar felur í sér talsverða hættu á fordómum. Það kom vel í ljós í umfjöllun allsherjarnefndar Alþingis síðasta vetur þegar löggjöfinni um útlendinga var breytt síðast og það er satt að segja fjölmargt í löggjöf okkar sem verður að breyta.

Síðar í dag kem ég til með að tala fyrir tveimur frumvörpum er varða málefni útlendinga. Þau ganga t.d. út á það að aflétt verði því vistarbandi sem hvílir á útlendingum sem koma til starfa á Íslandi með því að þeir fá ekki atvinnuleyfin sín sjálfir prívat og persónulega heldur eru hnepptir í fjötra eins og húsbændur felldu hjú sín í fjötra á sínum tíma. Löggjöf af þessu tagi sem við búum við elur á fordómum.

Í öðru lagi ætla ég að mæla fyrir frumvarpi sem ætlað er að knýja fram breytingar á því ástandi sem útlendar konur geta lent í hafi þær skilið við íslenska karlmenn sem hafa þess vegna beitt þær ofbeldi, annað atriði sem elur á fordómum.

Þau dæmi sem ég hef talið upp eru á ábyrgð stjórnvalda, þau eru þess eðlis að þau ala á fordómum í garð útlendinga og í mínum huga er ábyrgð þess stjórnvalds sem setur þjóðinni lög afar mikil. Stjórnvöldin íslensku hafa skellt skollaeyrum við þeim ábendingum sem þau hafa fengið frá fjölda virkra einstaklinga og félagasamtaka sem vinna að málefnum útlendinga.

Menn skulu horfa í eigin barm og hreinsa löggjöfina af forpokuðum sjónarmiðum sem ala á fordómum.