131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Staða innflytjenda.

[14:01]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Tilefni þessarar umræðu er skoðanakönnun um viðhorf Íslendinga til útlendinga, framandi menningar og flóttamanna.

Ég vil hefja mál mitt á því að vara fólk við því að taka slíkar skoðanakannanir of bókstaflega því þegar við lesum hvert hið upphaflega úrtak er þá er það rúmlega 2.700 manns en svarhlutfall er ekki nema rétt 42%. Við ættum því ekki að taka þessa könnun allt of bókstaflega. Ég er þó ekki að gera lítið úr henni og segja að við eigum ekki að taka neitt mark á henni, alls ekki. Það má vel vera að í þessari könnun felist ákveðnar vísbendingar og er sjálfsagt að ræða þær en fara hins vegar ekki alveg á límingunum þó að við séum ekki alls kostar sátt við niðurstöðurnar. Það er ýmislegt jákvætt í könnuninni, t.d. telja mjög margir af þeim sem svara að fólk eigi rétt á að halda eigin siðum og venjum. Íslendingar eru mjög opnir fyrir framandi menningu og telja að við höfum gott af því, enda er það ekkert ótrúlegt vegna þess að við höfum verið öflugir neytendur útlendrar menningar allt frá því að fyrstu landnámsmenn settust hér að.

Hér eru hins vegar vísbendingar um að það sé aukin andstaða við að leyfa ætti fleiri útlendingum að vinna hér á landi og að við ættum ekki að taka við fleiri flóttamönnum. Þetta eru einungis vísbendingar en þrátt fyrir það gæti falist í því aðvörun en ég treysti í sjálfu sér stjórnvöldum á hverjum tíma til að vera á vakt gegn þeirri vá sem fordómar gegn útlendingum eru. Við vitum alveg hvernig nágrannalöndin hafa lent í vandræðum með slíka hluti, það ætti að verða okkur lexía og við ættum einmitt að stúdera grannt hver reynsla þeirra hefur verið og draga síðan lærdóm af því og ég efast í raun og veru ekkert um að okkur Íslendingum takist að gera það. Við þurfum á útlendingum að halda í framtíðinni, bæði til að auka og auðga menningu okkar en líka sem vinnuafli. Þeir eru velkomnir.