131. löggjafarþing — 31. fundur,  16. nóv. 2004.

Staða innflytjenda.

[14:03]

Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur fyrir að taka upp þessa þörfu umræðu. Það er mjög margt sem við þurfum að hafa áhyggjur af í þessum málaflokki og mig langar aðeins að stikla á nokkrum atriðum.

Fyrsta spurningin er náttúrlega: Hvernig viljum við standa að aðlögun útlendinga sem vilja búa í samfélagi okkar? Ég er með sérstakar áhyggjur af stöðu erlendra kvenna og það er ekki að ástæðulausu og mig langar því mest að ræða um þær. Komið hefur í ljós að ofbeldi gagnvart þeim er að aukast, við sjáum það á tölum Kvennaathvarfsins. Kannski er það sýnilegra eða að þær vita meira um rétt sinn, en þetta er eitt af því sem væri mjög þarft að beina til nefndanna sem nú eru að störfum að skoða sérstaklega. Það eru til miklar og góðar skýrslur frá kvennaathvörfum á Norðurlöndunum um þessi mál sem gagnast afar vel.

Við þurfum að beita öllum ráðum til að ná til þessara kvenna og kannski hugsa upp nýjar leiðar, t.d. að láta liggja ýmsar upplýsingar í stórmörkuðunum því þangað kemur alla vega fólkið. Þegar talað er um farandverkamenn halda allir að alltaf sé verið að tala um karla en það er mikill misskilningur því konur eru 50% eða meira af þeim hópi. Þær yfirgefa fjölskyldur sínar og börn til að geta framfleytt þeim, þær afla gjaldeyristekna fyrir sitt eigið heimaland og eru hvattar til þess af sínu ríki. Lilja Hjartardóttir stjórnmálafræðingur hefur sagt í fyrirlestri um konur sem fara út í heim til að vinna að þær konur stuðli að því að vestrænar konur og karlar geti náð frama á vinnumarkaði og stuðli með því að þróun vinnumarkaðar. Þær halda heimili, elda mat, hugsa um börn og sinna sjúkum og öldruðum. Þær eru í stuttu máli lifandi velferðarkerfi. Þetta er eitt af því sem ég vil líka beina til nefndanna því að þessar konur eru svo sannarlega líka á Íslandi þannig að þær halda okkar kerfi gangandi.

En það eru ekki bara útlendingar sem ekki vilja aðlagast. Ég veit ekki betur en að það hafi verið í fréttum í gærkvöldi að Íslendingar í Danmörku neiti að læra dönsku.